Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[18:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég átta mig ekki á því hvort um er að ræða flutningskostnað eins og kemur fram í frumvarpinu eða úrvinnslukostnaðinn sjálfan eins og nú er haldið fram. (GHaf: Þetta hangir saman.)Þetta hangir saman, kallar hv. þingmaður fram í og benti á það hér áðan að bændur tækju þátt í því að safna þessu saman og það væri kostnaður við það. Fá bændur greidd laun fyrir að taka það að sér að safna þessu plasti öllu saman og vera eins umhverfisvænir og íslenskir bændur vilja vera? Nei, ég er ekki viss um það. Enn vitum við ekki hvað verður úr þessu plasti hér heima en við vitum þó, eða ættum að vita það, að þegar ríkisstjórnin er búin að samþykkja allar þessar hringrásarhugmyndir sínar, án þess, að því er virðist, að hafa kannað hverjar afleiðingarnar af því yrðu, þá er ekki hægt að skella þeirri skuld á bændur, stétt sem búið er að sækja að í tíð þessarar ríkisstjórnar úr mörgum áttum samtímis með ólíkum hætti. Þegar ríkisstjórnin samþykkir enn eina óúthugsuðu hugmyndina á grundvelli yfirbragðs og þeirra umbúða sem þeirri hugmynd var pakkað inn í, og það kemur á daginn að þetta er erfiðara en ráð var fyrir gert og kostnaðurinn meiri, þá er ekki hægt að sætta sig við að meiri hlutinn sendi þann reikning á bændur og láti bændur landsins borga fyrir eigið klúður.