Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[18:34]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir hækkun gjalda á umbúðir, þar á meðal hækkun gjalda á heyrúlluplast, líkt og tíðrætt hefur verið um í þessum ræðustól í dag. Með ákvæðinu er lagt til að úrvinnslugjald á heyrúlluplast hækki úr 30 kr. per kíló í 82 kr. Þessi hækkun er töluvert meiri en sú hækkun sem hefur átt sér stað undanfarin ár en árið 2013 hækkaði gjaldið úr 12 kr. í 16 kr. Árið 2019 hækkaði gjaldið úr 16 kr. í 28 kr. og árið 2022 í 30 kr. Nú á að hækka gjaldið per kíló um rúmlega 52 kr. Augljóst er að birgjar munu ekki taka þá hækkun á sig af framlegð vörunnar til að halda útsöluverði heyrúlluplasts óbreyttu. Gera má ráð fyrir því að þessi hækkun leggist beint á bændur. Þessi hækkun mun hafa töluverð áhrif á þungt rekstrarumhverfi bænda og gera það enn þyngra. Þetta skýtur skökku við í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur á árinu 2022 verið að bregðast við neyðarástandi vegna aukinna útgjalda í kjölfar hækkunar aðfanga í formi ábyrgðargreiðslna og spretthópsgreiðslna til bænda. Það er skýrt markmið ríkisstjórnarinnar að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar með öflugri innlendri landbúnaðarframleiðslu en slíkum markmiðum verður ekki náð með því að hækka enn frekar útgjöld á bændur. Staða landbúnaðar, og einna helst sauðfjárbænda, hér á landi er ekki stöndug. Rekstrargrundvöllur fer dvínandi og nýliðun er í lágmarki.

Virðulegur forseti. Ýmissa leiða var leitað til að lækka þessa tölu en í þeirri vinnu kom í ljós að vegna ákvæða laga nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, var meiri hlutinn nauðbeygður til að samþykkja þessa hækkun á úrvinnslugjaldi á heyrúlluplasti til að mæta raunkostnaði. Í II. kafla laga um úrvinnslugjald og ráðstöfun þess segir í 3. gr., með leyfi forseta:

„Til að stuðla að úrvinnslu úrgangs skal leggja úrvinnslugjald á vörur, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum. Leggja skal úrvinnslugjald á vörur hvort sem þær eru fluttar inn til landsins eða framleiddar hér á landi.

Úrvinnslugjald skal standa undir kostnaði við meðferð flokkaðs úrgangs á söfnunarstöð, flutning hans frá söfnunarstöð til móttökustöðvar eða endurnýtingarstöðvar, enda hafi verið greitt úrvinnslugjald af vörunum. Þá skal gjaldið standa undir endurnýtingu úrgangsins og förgun hans eftir því sem við á. Jafnframt skal gjaldið standa undir kostnaði við förgun þess úrgangs sem blandast hefur vöru sem greitt hefur verið úrvinnslugjald af, enda sé blöndunin hluti af eðlilegri notkun vörunnar. Úrvinnslugjald skal standa undir kostnaði vegna greiðslu skilagjalda og vegna starfsemi Úrvinnslusjóðs.“

Tillögur um fjárhæðir í bandorminum byggja á áætlun Úrvinnslusjóðs um raunkostnað við úrvinnslu hvers vöruflokks í samræmi við lagaákvæði um að hver vöruflokkur sé fjárhagslega sjálfstæður. Nýlega hækkaði Úrvinnslusjóður greiðslur fyrir endurvinnslu á heyrúlluplasti innan lands í 120 kr. per kíló. Til viðbótar greiðir sjóðurinn flutningsjöfnun vegna flutnings plastúrgangs af landsbyggðinni til endurvinnslu. Með hækkuninni á úrvinnslugjaldinu er stuðlað að endurvinnslu á plasti innan lands og hefur Úrvinnslusjóður tekið mið af þeim sjónarmiðum sem komu m.a. fram við þinglega meðferð við setningu laga nr. 103/2021. Hagkvæmnis- og umhverfisverndarrök mæla með því að sem mest af plasti er til fellur í landinu verði endurunnið hérlendis og sem minnstur hluti fluttur úr landi. Ef aðstæður til endurvinnslu eru til staðar á landinu er rétt að nýta þær, enda er um mikilvægan þátt í myndun hringrásarhagkerfis á Íslandi að ræða. Verði úrvinnslugjald á heyrúlluplasti ekki hækkað er hoggið í þær stoðir sem kerfið byggir á, þ.e. að gjaldið eigi að standa undir raunkostnaði við úrvinnslu. Úrvinnslusjóði ber að tryggja að fjárframlög framleiðenda og innflytjenda standi undir þeim kostnaði sem af viðkomandi vöru hlýst. Það er ein af lágmarkskröfum varðandi framlengda framleiðendaábyrgð sem verða lögbundnar frá 1. janúar næstkomandi, sbr. 19. gr. laga nr. 103/2021.

Virðulegur forseti. Mig langar í máli mínu hér að árétta vilja meiri hlutans hvað þetta varðar og ég krefst þess að bændum verði mætt. Í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar segir, með leyfi forseta:

„Hækkun á úrvinnslugjaldi fyrir heyrúlluplast er umtalsverð. Sú hækkun getur orðið bændum íþyngjandi, en óvíst er hvernig verð á þessari mikilvægu rekstrarvöru bænda þróast næstu mánuði. Meiri hlutinn bendir á að rekstrarumhverfi búvöruframleiðslu er kvikt, í kjölfar heimsfaraldurs og stríðsátaka. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar á liðnu ári hafa verið umtalsverðar vegna þessa. Enn eru blikur á lofti og mikilvægt er að fylgjast áfram með þróun mála og beita markvissum aðgerðum vegna hagsmuna neytenda, bænda og íslensks matvælaiðnaðar.

Þá beinir meiri hlutinn því til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að komið verði til móts við bændur vegna þessara hækkana og metið með hagsmunaaðilum hvernig söfnun og endurvinnsla á heyrúlluplasti geti verið sem hagkvæmust til framtíðar. Með því er tryggð betri endurheimta og endurvinnsla á heyrúlluplasti í anda hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins og kostnaður bænda af söfnun þess til endurvinnslu lágmarkaður.“

Virðulegur forseti. Ráðherra verður að fara strax af stað og finna lausn til framtíðar fyrir bændur í samráði við þá svo að þessi hækkun komi ekki illa við bændur. Bregðast þarf við án tafar. Ég bind miklar vonir við hæstv. umhverfisráðherra, að hann vinni þetta í þéttu samstarfi við hæstv. matvælaráðherra og í samráði við bændur, og ítreka enn frekar vilja meiri hlutans hvað þetta varðar. Ég brýni fyrir ráðherra í þessum efnum og ætlast til þess að komið verði til móts við bændur hvað þetta gjald varðar og að við höldum áfram að styðja við íslenskan landbúnað með öflugum hætti. Það skiptir öllu máli ef við ætlum að tryggja raunverulegt matvælaöryggi þjóðarinnar.