Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

meðferð einkamála o.fl.

278. mál
[20:49]
Horfa

Flm. (Jóhann Friðrik Friðriksson) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir hönd allsherjar- og menntamálanefndar fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum með meðferð einkamála, lögum um meðferð sakamála og lögum um dómstóla.

Frumvarpið felur í sér breytingar á framangreindum lögum. Mikilvægustu breytingarnar sem lagðar eru til með frumvarpinu varða heimild til að sækja um kæruleyfi til Hæstaréttar í auknum mæli sem og rýmri skilyrði fyrir því að áfrýja héraðsdómi beint til Hæstaréttar. Aðrar breytingar miða ýmist að því að skýra eða einfalda gildandi lagaákvæði eða færa þau til betri vegar í ljósi fenginnar reynslu.

Nefndin hefur fjallað um málið, fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir eins og greint er frá í nefndaráliti sem liggur frammi. Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill nefndin árétta sérstaklega þá þætti sem snúa að framlengingu gæsluvarðhalds án dómsúrskurðar við ákveðnar aðstæður sem mælt er fyrir um í 12. gr. frumvarpsins. Gæsluvarðhald getur, verði ákvæðið að lögum, lengst um allt að 24 klukkustundir án sérstaks dómsúrskurðar. Í nefndaráliti bendir nefndin á að 12. gr. frumvarpsins er ætlað að mæla fyrir um skýra lagaheimild um að lögreglu sé heimilt að halda sakborningi á meðan dómari tekur ákvörðun um framlengingu gæsluvarðhalds. Nefndin undirstrikar að framlenging gæsluvarðhalds við þessar aðstæður er íþyngjandi fyrir sakborning þrátt fyrir að mikilvægir hagsmunir, t.d. vegna rannsóknar lögreglu, kunni að vera í húfi. Nefndin fjallaði sérstaklega um þann ramma sem 67. gr. stjórnarskrárinnar setur um frelsissviptingu og þá meðalhófsreglu sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 67. gr. hennar um að gæsluvarðhald skuli aldrei standa lengur en nauðsyn krefur. Nefndin telur nauðsynlegt að þessi heimild verði skoðuð frekar og leggur því til breytingu á frumvarpinu þess efnis að 12. gr. falli brott.

Þá fjallaði nefndin um tilvísun til Landsréttar í lögum nr. 61/2022. Á tveimur stöðum í þeim lögum þykir rétt að vísa til dóms en ekki tilgreina Landsrétt sérstaklega. Í báðum tilvikum lýtur breytingartillagan nánar tiltekið að því að skilyrða meðferð einkaréttarkröfu fyrir Hæstarétti, í þeim tilvikum þegar Hæstiréttur snýr við sýknudómi Landsréttar og sakfellir ákærða í refsiþætti málsins, við það að slíkri kröfu hafi verið vísað frá dómi, í stað þess að binda slíka dómsmeðferð við að einkaréttarkröfu hafi verið vísað frá Landsrétti. Að öðrum kosti kynnu einhverjir brotaþolar að fara á mis við það réttarhagræði við meðferð sakamála fyrir Hæstarétti að geta krafist þess að einkaréttarkröfu þeirra verði vísað til sérstakrar meðferðar í einkamáli í Landsrétti, snúi Hæstiréttur sýknudómi Landsréttar við og sakfelli ákærða.

Þá eru lagðar til minni háttar eða lagatæknilegar breytingar sem þarfnast ekki sérstakrar umfjöllunar hér. Vísast að öðru leyti til ítarlegri umfjöllunar um breytingartillögur í nefndarálitinu.

Virðulegi forseti. Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir. Undir nefndarálitið rita, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Bryndís Haraldsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Helga Vala Helgadóttir, Jódís Skúladóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir. Sigmar Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi, er samþykkur álitinu.

Virðulegur forseti. Ég hef lokið yfirferð minni og læt hér staðar numið.