Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[22:00]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar maður skoðar þetta frumvarp er alveg augljóst hvaðan skipanirnar koma við þessa löggjöf. Skipanir við þessa löggjöf koma frá Brussel, nánar tiltekið frá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA. Þetta frumvarp ber þess algerlega merki að íslensk stjórnvöld ráða ekki för hérna, svo að það liggi algjörlega fyrir. Þetta er samkvæmt ESA. Það kemur fram í frumvarpinu, á bls. 10:

„Ráða mátti af samskiptum við ESA að stofnunin teldi líkur á því að íslensk löggjöf um leigubifreiðar fæli í sér aðgangshindranir sem ekki samræmdust skyldum íslenska ríkisins að EES-rétti. ESA hafði þá þegar gert athugasemdir við aðgangshindranir að leigubifreiðamarkaðnum í Noregi …“ — o.s.frv. Noregur og Ísland eru fámenn ríki, dreifbýl ríki, og við erum hérna með ákveðið kerfi til að tryggja að Íslendingar á höfuðborgarsvæðinu og þéttbýlisstöðum á Íslandi eins og Akureyri fái notið leigubílaþjónustu. Þessi löggjöf virðist ekki gera neitt annað en að grafa undan því. Ég leyfi mér að vísa til 7. gr. um starfsleyfi leigubifreiðastöðva, 2. málsl. Ég skal bara lesa málsgreinina í heild, með leyfi forseta:

„Leigubifreiðastöðvar samkvæmt lögum þessum skulu hafa starfsleyfi sem slíkar sem útgefið hefur verið af Samgöngustofu. Rekstrarleyfishafa er þó heimilt að reka leigubifreiðastöð án starfsleyfis leigubifreiðastöðvar þar sem ein leigubifreið sem hann er skráður eigandi eða umráðamaður að hefur afgreiðslu.“

Hér er klárlega verið að hleypa inn svokölluðum Uber-farveitum. Ég get ekki annað séð en að ekki sé verið að taka tillit til þess og núna með þessu frumvarpi er nánast verið að ganga að heilli starfsstétt dauðri. Það kom fram í fyrra andsvari að það eigi að hafa eftirlit með þessu (Forseti hringir.) og líka að það eigi að meta áhrifin af þessu frumvarpi. (Forseti hringir.) Stjórnvöld vita ekki hvað þau hafa. Hvað hafa stjórnvöld fyrir sér í því að það sé ekki verið að gera það samkvæmt þessum fullyrðingum sem ég hef nefnt? Það er ekkert, ekki neitt.