Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[22:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Takk fyrir þetta andsvar. Varðandi atvinnuumhverfi leigubílstjóra þá eru núverandi lög og reglur þannig að atvinnuleigubílstjóri þarf að vera í 100% vinnu við að vera leigubílstjóri. Það er ekki mikið í jafnrétti í því og þetta útilokar konur frá leigubílaakstri og t.d. fatlaða sem eru með skerta starfsgetu og fleiri. Ég held að þetta umhverfi sé bara orðið það gamalt og úrelt að það sé komið að endurnýjun á því.

Hvað varðar að tryggja fólki þjónustu og talandi um viðkvæma hópa sem er mjög mikilvægt að halda áfram þjónustu við þá tel ég að þetta frumvarp komi alls ekkert í veg fyrir að þeir hópar verði þjónustaðir því að það má áfram gera samninga við þessa hópa. Ég held að það verði akkúrat til þess að tryggja sér atvinnu, ef leigubílstjórar eru hræddir um að missa spón úr sínum aski þá sé einmitt hægt að gera slíka samninga sem er mikilvægt að sé eftirsótt. Það verður áfram leyfilegt þannig að ég tel að þetta verði til bóta. En breytingar eru alltaf viðkvæmar og það verður fylgst með þeim.