153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[22:31]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Nú flauta leigubílstjórar hér fyrir utan. Við skilum góðri kveðju til þeirra ef þeir eru að hlusta. Til að svara spurningum hv. þingmanns, og ég þakka andsvarið, þá er það þannig — fyrst varðandi fulltrúa í nefndinni: Nú liggur það bara fyrir að þetta er nefnd sem var sett á laggirnar árið 2017 og allt sem kemur frá félagasamtökum leigubifreiðastjóra frá a.m.k. á árinu 2019 fer í allt aðrar áttir, öll sjónarmið sem koma frá þeim fara í allt aðrar áttir heldur en niðurstaða þessarar nefndar leggur til. Nú veit ég ekki með hvaða hætti skipun þess tíma átti sér stað en það er í öllu falli þannig að árum saman hafa leigubifreiðastjórar verið að leggja til allt annað heldur en þessi starfshópur komst að niðurstöðu um á sínum tíma og það að ekki hafi verið hlustað á þau sjónarmið, það gagnrýni ég mjög harðlega.

Varðandi þjónustu við viðkvæma hópa þá bara endurspeglast það í því sem ég fór með úr umsögnum Blindrafélagsins. Það kristallar þær áhyggjur sem uppi eru yfir þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru á rekstrarumhverfi þessa geira. Hættan er sú að þeim fækki sem hafa þetta að fullu starfi, sem dragi úr framboði leigubifreiða þegar mest þörf er á þessari þjónustu, sem er til að mynda á morgnana og virkum dögum þegar verið er að koma lögblindum til vinnu eða náms svo dæmi sé tekið. Þetta eru áhyggjurnar sem ég tek undir og er lýst hér svo ítarlega og vel í umsögnum Blindrafélagsins frá árinu 2020 og 2022.