153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[22:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég hef ekki séð skýrslu þessa starfshóps en í greinargerð frumvarpsins kemur fram að frumvarpið er unnið upp úr þessum tillögum, ásamt náttúrlega fleiru. Hv. þingmanni var tíðrætt um hvernig vinnan hefði farið fram í fyrra og að það hefði verið svo illa og hroðvirknislega gert og þess vegna ekki farið í gegn. Eins og ég tók fram í minni ræðu þá voru gerðar nokkuð margar breytingar og það komu miklu færri umsagnir hvað það varðar við framlagningu á þessu frumvarpi. Mig langar bara að nefna að það kom ekki umsögn frá Blindrafélaginu við þessa framlagningu en það kom umsögn frá Landssamtökum Þroskahjálpar þar sem þeir tóku fram að tryggja þyrfti öruggt aðgengi eða þjónustu alla virka daga. Mér fannst mikilvægt að fá þessa umsögn enda tökum við undir hana og viljum treysta því að fylgst verði með því hvernig sú þjónusta fer fram.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort þessar breytingar sem voru gerðar við síðustu framlagningu málsins, sem voru nokkuð margar, eins og stöðvarskylda t.d., hafi ekki verið til bóta.