153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[22:35]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið. Stutta svarið er í rauninni bara nei. Ég gef mér að hv. þingmaður sé þarna að vísa til þeirra breytinga sem voru lagðar til í nefndarálitinu undir lok síðasta þings. Er ég ekki að skilja það rétt? Já, já, þá er bara mjög einfalt svar við því. Ég held að þær hafi ekki verið til bóta og í raun alls ekki. Það er auðvitað þannig, eins og komið hefur fram og ég hef sagt í ræðum hér áður, að þar var hæstv. innviðaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, með einum eða öðrum hætti að gefa sjálfum sér stoðsendingu eins og í körfubolta. Ég gef mér að þessar tillögur að breytingum sem komu fram í nefndaráliti hafi komið frá ráðherranum. Það er svo sem rétt samkvæmt þeim upplýsingum sem komið hafa fram. Þannig að nei, þær breytingar voru held ég allar til óþurftar frá fyrri stöðu og var nú málið ekki gott áður.

Hv. þingmaður kom inn á annað atriði í andsvari sínu sem mér fannst ég skulda svar við. Ef hv. þingmaður minnir mig ekki á hver sú spurning var þá verð ég að sleppa henni. Hv. þingmaður kannast ekki við aðra spurningu þannig að ég bara ítreka að svarið við þessari spurningu er að þær breytingar sem komu fram með þeim undarlega hætti sem er lýst svo vel í nefndaráliti 1. minni hluta sem Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, og Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, leggja hér fram, þær voru allar, leyfi ég mér að segja, til óþurftar.