153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[22:40]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Mér hefur lengi þótt mesta furða hversu viðkvæmir sumir stjórnmálamenn, en sérstaklega embættismenn, eru gagnvart því að fá bréf frá ESA. Það er eins og fátt sé verra í þessum heimi en að fá bréf frá þeirri ágætu stofnun sem er, eins og þingmaðurinn lýsti ágætlega, ekki endanleg niðurstaða í neinu samhengi. En varðandi málsmeðferðina á milli þinga núna þá hef ég gagnrýnt það að þessi stoðsending innviðaráðherra á sjálfan sig, undir lok síðasta þings, sé notuð sem rökstuðningur fyrir breytingum málsins á milli þinga. Það er auðvitað alger furða. Það velkist enginn í vafa um það, sem hefur setið nefndarfundi vegna málsins og hlýtt á þær upplýsingar sem þar koma fram, að grunnur þeirra breytinga og þess nefndarálits sem þar var rammað inn undir lok síðasta þings kom frá hæstv. innviðaráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni, og ráðuneyti hans. Síðan er lagt af stað með málið við upphaf þessa þings og því haldið fram, varðandi þær grundvallarbreytingar sem gerðar eru, að einungis sé verið að bregðast við sjónarmiðum sem hefðu með einum eða öðrum hætti, að því var ýjað, verið rædd í þaula á liðnu þingi, sem var auðvitað ekki raunin. Tæknilega er ekki hægt að segja að það sé neitt rangt við þetta en þetta er mjög óvanalegt og eiginlega varla boðlegt, sérstaklega þegar á síðan á endanum að klára málið hér undir miðnætti svona rétt fyrir þingfrestun um jól.