Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[22:47]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Við ræðum hér þrákelkni Framsóknarflokksins við það að vega að samvinnufélögum, í þessu tilviki samvinnufélögum leigubílstjóra. Samvinnufélög eru greinilega ekki nógu svöl lengur í huga nýju Framsóknar og ljóst að hvað sem líður yfirlýsingum á tyllidögum, um mikilvægi samvinnurekstrar og slíkt, þá er raunin önnur þegar til kastanna kemur. Hún birtist í þessu frumvarpi og viðvarandi tilraunum til að koma því í gegn með góðu eða illu. Nú er mælt fyrir því í fjórða skipti og það tekið fyrir. Þingmönnum Miðflokksins hefur áður tekist að koma í veg fyrir afgreiðslu málsins eftir allmikla þrautagöngu og af ýmsum ástæðum sem við höfum rökstutt í alllöngu máli hér í þinginu, en menn láta ekki segjast og mæta með það hér eina ferðina enn án nokkurs viðbótarrökstuðnings og án þess að hafa skoðað staðreyndir málsins eða svarað gagnrýni, m.a. og ekki hvað síst frá leigubifreiðastjórum. Það er komið með málið aftur og aftur, það skal einfaldlega klárað af einhverjum ástæðum, hvort sem það er vegna undirgefni við Evrópusambandið — meiri undirgefni en önnur EFTA-lönd, til að mynda Noregur, sýna í þessu máli — eða vegna þess að nýja Framsókn vill vera svöl hér í 101 Reykjavík og hjólar þess vegna í samvinnufélög leigubifreiðastjóra.

Hinir stjórnarflokkarnir eru svo sem ekki saklausir af þessu. Ungir Sjálfstæðismenn hafa lengi haft horn í síðu þessarar stéttar og tóku meira að segja upp á því, til að auglýsa þetta frumvarp Framsóknarmanna, að bjóða upp á ókeypis ferðir þegar mest var að gera í miðbænum hér ekki alls fyrir löngu. Þeir tóku reyndar við frjálsum framlögum og útskýrðu að þeim yrði varið í að gera hælisleitendum eða flóttamönnum kleift að hefja leiguakstur.

Hvað varðar afstöðu Vinstri grænna þá vitum við minna um það, þeir a.m.k. láta sér í léttu rúmi liggja þó að Framsóknarflokkurinn haldi áfram að hamast í þessu máli við hver þinglok og nú í fjórða skipti. En nú eru reyndar ekki þinglok. Það er bara að koma að jólahléi þingsins og áramótum vegna þess að það á greinilega að tryggja að þetta mál komi fram í tæka tíð svo að ekki verði möguleiki á að stöðva framgang þess.

Og um hvað snýst þetta í raun fyrir utan hið augljósa, sem ég nefndi hér í upphafi, að vega að samvinnufélögum leigubifreiðastjóra? Það snýst um fjandskap í garð einnar stéttar. Ég held að mér sé óhætt að segja að engin ein stétt á Íslandi hafi mætt viðlíka fjandskap af hálfu þessarar ríkisstjórnar og leigubifreiðastjórar. Bændur hafa vissulega mátt þola mikla ágjöf af hálfu stjórnarinnar sem hefur sótt að þeim úr ýmsum áttum og við ræddum í dag enn eitt dæmið um hvernig þessi ríkisstjórn, sem þykist þykja vænt um landbúnaðinn, hefur sótt að þeirri grein. En eina stéttin sem er nánast lagt til að leggist af, því að það yrðu hin raunverulegu áhrif þessa frumvarps, eru leigubifreiðastjórar. Þótt rökstuðninginn vanti, þótt þetta sé fjórða tilraunin þá er haldið áfram að bæta við umbúðum. Þessu er pakkað inn í nýjar og nýjar umbúðir. Hér heyrðum við áðan framsögumann meirihlutaálitsins, hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur, halda því fram að það yrði fylgst vel með þróuninni. Hún viðurkenndi reyndar að þessar breytingar fælu í sér hálfgerða óvissu, svo að ég vitni í hv. þingmann, en það yrði brugðist við strax ef markmiðið næði ekki fram að ganga. Trúir því einhver maður að ef búið væri að leiða þetta í lög og í ljós kæmi að markmiðin hefðu ekki náð fram að ganga, eins og ég held við getum öll ályktað um að sé langlíklegasta niðurstaðan, að þá yrði brugðist strax við og undið ofan af þessu?

Ég trúi því ekki og ég ætla að leyfa mér að fullyrða, forseti, að í raun trúi enginn hv. þingmaður því. Svo koma ný furðurök eins og þau að núverandi fyrirkomulag útiloki konur og fatlað fólk frá leigubifreiðaakstri og því bætt við að umhverfið sé gamalt og úrelt en, svo ég vitni enn og aftur í framsögumann meirihlutaálitsins, að breytingar séu alltaf viðkvæmar og það verði að fylgjast með því. Hefur þessi hópur Framsóknarmanna og raunar ríkisstjórnarinnar allrar sem ber ábyrgð á þessu og, ég verð að láta það fylgja, flestra stjórnarandstöðuflokka líka fylgst með þróuninni sem nú þegar hefur birst og komið fram frá því að þetta frumvarp var lagt fram í upphafi? Hafa menn til að mynda tekið eftir Uber-hneykslinu svokallaða sem vakti athygli um alla Evrópu og í Bandaríkjunum, um það hvernig það fyrirtæki hefði misfarið með hlutverk sitt og ekki fylgt þeim reglum sem um það áttu gilda þegar eflaust einhverjir Framsóknarmenn annarra landa höfðu haldið því fram á sínum þjóðþingum að þetta yrði allt í lagi og það yrði nú fylgst með að þetta yrði allt í lagi? Missti þessi hópur af Uber-klúðrinu í Noregi og því hvernig öll þessi breyting, sem er nákvæmlega í samræmi við það sem lagt er til hér, klúðraðist þar í landi? Norðmenn lögðu í rannsókn á því og mat á því hvernig ætti að breyta regluverkinu. Menn virðast hafa misst af því, því að ef þeir hefðu fylgst með þá væri ekki verið að reyna að keyra þetta mál í gegn hér í fjórða sinn rétt fyrir jól. Þá myndu menn vilja fylgjast með niðurstöðunni í Noregi, læra af því og þá væntanlega semja reglur sem taki mið af reynslu Norðmanna eftir það klúður sem þar varð. Nei, það er ekki gert. Það er einfaldlega ráðist í að innleiða reglur með góðu eða illu sem þegar hafa brugðist annars staðar.

Ég get nefnt fleiri dæmi. Ég get nefnt hvernig til að mynda Uber var úthýst frá London og hvernig þeir hættu rekstri í Danmörku á sínum tíma vegna þeirra krafna sem voru gerðar til þeirra, til að mynda um gjaldmæli. Hefur það fólk sem keyrir þetta mál áfram tekið eftir þessu? Það virðist ekki vera. Hugsanlega hefur það gert það og er bara búið að bíta í sig að þetta verði að klárast á einn eða annan hátt vegna þess að innviðaráðherrann hafði lagt svo mikið undir í málinu. Framsóknarflokkurinn hafi lagt allt undir til að þetta mál þeirra kláraðist og hugsanlega gert einhverja samninga við hina stjórnarflokkana og hleypt í gegn einhverju sem Framsóknarmönnunum líkaði síður, en fyrir vikið þyrftu þeir að fá að klára þetta.

En hvers vegna? Hvers vegna vilja þeir klára þessa aðför að samvinnufélögum? Er það til að vera meira „in“ í 101 Reykjavík? Er það vegna undirgefni við Evrópureglur, sem flokkurinn hefur svo sem sýnt ítrekað að undanförnu, eða blanda af þessu tvennu? Eða er það bara sú staðreynd að menn treysti sér ekki til að viðurkenna að hugsanlega hafi þeir haft rangt fyrir sér þegar þeir fóru af stað og líður illa með að málið hafi verið stöðvað í þrígang, það þurfi að klára það til að klára það? Hver sem ástæðan er þá erum við enn og aftur að ræða þetta mál hér, ekki bara án frekari rökstuðnings heldur en lagt var upp með, heldur eftir að í ljós hefur komið atriði eftir atriði í öðrum löndum sem sýnir hvers konar vangá þetta frumvarp og þessi áform fela í sér. Það, eins og hv. þm. Bergþór Ólason kom reyndar aðeins inn á hérna áðan, að fara með svo afgerandi hætti gegn heilli starfsstétt rétt eftir að sú stétt er að komast út úr áhrifum Covid-faraldursins, sem bitnaði nú á þessari stétt meira en mörgum, jafnvel flestum öðrum, er í rauninni bara illa gert — og það að gera þetta svona rétt fyrir jólin.

Ég veit ekki hver afraksturinn yrði fyrir þá sem standa að þessu, hugsanlega sæti í spjallþætti hjá Gísla Marteini á Ríkisútvarpinu þar sem einum fulltrúa Framsóknarflokksins yrði hrósað fyrir hvað flokkurinn væri orðinn nútímalegur. En í því felast svik við heila starfsstétt, stétt sem er ekki nýtilkomin. Íslenskir leigubílstjórar eiga sér langa og merka sögu, eins og reyndar leigubílstjórar í mörgum öðrum löndum. Leigubílstjórar í Lundúnum í Bretlandi eru til að mynda eitt þekktasta menningarfyrirbæri borgarinnar og ferðamenn líta á það sem upplifun að fara þar í leigubíl. Hér erum við ekki með sams konar einsleita svarta leigubíla en við erum með frábæran hóp af leigubifreiðastjórum sem hafa þurft að mæta mjög miklum kröfum og sífellt vaxandi kröfum á undanförnum árum sem hafa falið í sér verulegan kostnað fyrir viðkomandi, einnig vinnuskyldu í formi námskeiða og þar fram eftir götunum. Það eru gerðar kröfur til bifreiðanna og hvernig menn komi fram við viðskiptavini. Viðskiptavinir íslenskra leigubílstjóra eru líklega þeir sem hafa hvað mestar áhyggjur af þessum áformum og ég hef heyrt í þeim mörgum, ekki bara í mínum flokki heldur fólk sem ég þekki ekki neitt sem hefur einfaldlega áhyggjur af því hverjar afleiðingar þessa verða og bendir á hvað það hafi verið gott í gegnum tíðina að geta reitt sig á íslenska leigubílstjóra sem menn treysta. Sumir hringja alltaf í sama leigubílstjórann, aðrir í hvern sem er næstur í trausti þess að þeir sem hafi uppfyllt þær kröfur sem hér gilda til stéttarinnar verði í lagi. Það hefur verið raunin að íslenskir leigubílstjórar hafa reynst viðskiptavinum sínum vel.

Nú er reyndar mikið talað um að leigubílar anni ekki eftirspurn á háannatíma. Það má til sanns vegar færa. Eflaust gerist það nokkrum sinnum, kannski tvisvar í viku yfir eitthvert tímabil, en er lausnin þá sú að gefa öðrum kost á því að fleyta rjómann ofan af markaðnum, ef svo má segja, án þess að þurfa að uppfylla sömu skyldur og kröfur og leigubílstjórarnir sem hafa þetta að atvinnu fyrir sig og fjölskyldu sína og þurfa að uppfylla allar þessar kröfur og reglur og mæta á vaktina, líka þegar lítið er að gera, og bíða oft og tíðum, bíða á meðan ásókn er minni en vera ávallt tilbúnir að fara af stað þegar á þá er kallað? Þetta getur ekki verið lausnin á þessum vanda sem kemur upp þegar eftirspurn nær hámarki. Ég skal viðurkenna að það er eitthvað sem þarf að laga en það segja leigubílstjórar líka. Þeir vilja leita lausna á slíkum vandamálum, en er leitað til þeirra með það? Fá þeir að taka þátt í því? Nei. Hvers vegna ekki? Vegna þess að hér er ekkert verið að leita eftir lausnum. Það er bara verið að leita eftir því að fá loksins að klára þetta mál sem liggur hér fyrir í fjórða skipti. Svo mikið liggur á því að það er ekki einu sinni leitað eða litið til athugasemda leigubílstjóra í umfjöllun um málið. Það var rætt hérna nokkuð ítarlega áðan hvernig fulltrúar Bandalags íslenskra leigubifreiðastjóra voru skildir út undan í þeirri vinnu sem fram fór við undirbúning málsins, eftir að bandalag Brussel og Framsóknarflokksins setti þetta af stað, en hins vegar hefði maður ætlað, þrátt fyrir tilraunir til að útiloka fulltrúa leigubifreiðastjóra við vinnslu málsins, að alla vega yrði tekið meira tillit til athugasemda þeirra en raun ber vitni. Það er nú það sem tíðkast hér á þingi þegar verið er að breyta lögum sem hafa áhrif á tilteknar starfsstéttir, að menn hlusta á viðbrögð þeirra stétta. Hér er í rauninni verið að leggja til að heil stétt verði lögð niður og það er ekki litið til athugasemda þeirra sem starfa í þeirri stétt. Það er undarlegt, forseti, en kannski ekki svo því að menn treysta sér ekki til að svara, treysta sér ekki til að verja málið og vilja einfaldlega keyra það í gegn.

Á sama tíma leggur þessi ríkisstjórn til að mynda ekki í að keyra í gegn frumvarp um útlendinga sem hefur verið lagt fram fimm sinnum og þynnt út í hvert einasta skipti. Þar gefast menn upp, en hér er hert á og bætt í og málið skal keyrt í gegn á meðan annað mál sem varðar algjört neyðarástand hér, stjórnleysi í hælisleitendamálum á Íslandi, er látið hverfa núna fyrir jólin eina ferðina enn vegna þess að ríkisstjórnin treystir sér ekki til að koma því í gegn. Í umræðu hér fyrr í dag um bandorminn svokallaða eða lagabreytingar og skattahækkanir, gjaldahækkanir aðallega sem tengjast fjárlögum, lýsti hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar því að það væri mjög leitt hvað væri verið að leggja miklar álögur á bændur vegna rúlluplasts en menn bara gætu ekkert gert í því. Ríkisstjórnin hefði samþykkt lög eða áform á sínum tíma um hringrásarhagkerfið og það væri ekkert við þessu að gera. Tölvan segir bara: Við verðum að hækka gjöld á bændur.

Hér held ég á frumvarpi til laga sem er heil bók um breytingu á lögum um úrvinnslugjald, hringrásarhagkerfið. Þetta eru reyndar allt bara töflur um gjöld og skatta, plast og pappa og annað slíkt. Þetta ætla menn að klára vegna þess að tölvan segir þeim að gera það eftir að þeir samþykktu hringrásarhagkerfið, en þeir ráða ekki við útlendinga- og hælisleitendamálin af því að þeir eru of uppteknir við hringrásarhagkerfið og að leggja af stétt leigubifreiðastjóra.