Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[23:10]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir það að þetta er ekki í neinu samræmi við íslenskan raunveruleika og ég get líka tekið undir að þetta kemur eflaust beint frá Brussel en ég held að meira komi til. Ég kem inn á það hérna rétt strax. En það var auðvitað lýsandi þegar tekin var ákvörðun um að skikka íslenska atvinnubílstjóra á reglubundin endurmenntunarnámskeið vegna aksturs yfir landamæri — á Íslandi. Ég veit ekki til þess að nokkur hluti landsins hafi klofið sig frá restinni af ríkinu og því enginn akstur yfir landamæri hér. Samt var þetta innleitt og íslenskir bifreiðastjórar þurfa enn að sitja undir því. Það munaði víst minnstu, og það var fyrir mína tíð í stjórnmálum, að við þyrftum að taka upp reglugerðir Evrópusambandsins um lestir, lestarsamgöngur. Eina járnbrautarlestin eða eimreiðin sem ég veit um er þessi gamla frá 1911 sem er hérna niðri við höfn. En svona er þetta oft algjörlega úr tengslum við raunveruleikann.

En það sem ég held að bætist við núna er einmitt það sem hv. þingmaður kom aðeins inn á, að innviðaráðherrann gefur einhverja yfirlýsingu, vill vera nýja Framsókn, hipp og kúl — hvernig þýði ég það, herra forseti? svona svalur — fá atkvæði hérna í 101 og gefa yfirlýsingar í samræmi við það. Svo kemur allt í ljós sem hv. þingmaður nefndi með Uber og allt þetta í Evrópu en þá var orðið of seint að snúa til baka af því að menn eru komnir af stað á þessari braut. Svo koma Miðflokksmenn og stoppa málin fyrir þeim og tefja og þá telja þeir sig þurfa að keyra þetta í gegn og semja væntanlega við hina stjórnarflokkana um að þetta sé þeirra mál. Málið þeirra sé að leggja af stétt leigubifreiðastjóra.