Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[23:12]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið sem var mjög greinargott. Ég tek heils hugar undir það sem hann segir, vissulega bætist hér inn í einhver ný stemning í Framsóknarflokknum varðandi það að bjóða Uber velkomið til Íslands. Ég minni á t.d. að það eru skjöl hjá Evrópusambandinu um misferli hjá Uber. Í skjölunum koma fram upplýsingar um mútugreiðslur og samskipti þar sem gerendur eru meðvitaðir um eigin sök og ólögmæta starfsemi Uber. Ég er nú bara þannig að ég er kosinn í íslenskum raunveruleika. Ég er þingmaður Norðvesturkjördæmis, kosinn af íslenskum kjósendum og ég get ekki skilið það að Framsóknarflokkurinn sé að styðja þetta mál, ég bara get ekki skilið það, svo það liggi fyrir.

En það var mjög áhugavert í ræðu hans þar sem hann talaði um Uber í Danmörku og London og á fleiri stöðum og minntist m.a. á leigubifreiðarnar í London og ég tek undir það, það var skemmtileg samlíking. En ég get líka minnt á það að leigubílarnir í New York borg eru líka menningarlegt íkon, ef ég má nota það orð, og merkilegir fyrir sína sök.

En ég get ekki séð annað í þessu en kjarkleysi. Nú er hv. þingmaður fyrrum forsætisráðherra. Er þetta kjarkleysi sem kemur fram í þessu frumvarpi gagnvart Brussel, gagnvart ESA, menningarlegt fyrirbæri í Stjórnarráðinu eða vita menn ekki — nú lærði ég Evrópurétt. Mér finnst það að ESA — eftirlitsstofnunin ESA fær hérna ákveðið vald. Það kemur fram í frumvarpinu að þeir telji líkur á því að þetta gæti verið brot á EES-reglunum. En er það þannig að umsagnir og frumkvæðisathuganir og bréfaskipti við ESA, allt sem kemur frá ESA, sé raunverulega endanlegur dómur um hvað er gildandi EES-réttur? Og Stjórnarráðið telur ekki þörf á að fara með það fyrir dómstóla, telji íslensk stjórnvöld að einhver vafi sé þar á.