Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[23:27]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir ræðuna. Fyrir okkur sem hér erum er auðvitað býsna mikilvægt að fá innsýn einstaklings, í þessu tilviki þingmanns, sem hefur raunverulega reynslu af því kerfi sem hér hefur verið byggt upp í gegnum áratugina, sem hefur nýtt sér það þannig að til verulegra bóta varð, bæði fyrir hv. þingmann og samfélagið allt auðvitað. Það er afleiðing þess að þetta góða kerfi hefur stutt jafn vel við virkni til að mynda lögblindra og raun ber vitni um.

Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að með þessu frumvarpi sem hér liggur fyrir sé í raun verið að leggja af starfsstétt leigubifreiðastjóra eins og við þekkjum hana. Ég er sammála þessu sjónarmiði og hef velt því töluvert fyrir mér hvort eitthvert sambærilegt dæmi sé tiltækt þar sem lagabreytingar, regluverksbreytingar stjórnvalda hafa mögulega kippt fótunum jafn snarlega undan heilli starfsstétt og hér gæti orðið raunin, hvort hv. þingmaður þekki til þess að slíkt hafi verið gert bótalaust á fyrri stigum eða hvort það sé bara þannig að andúðin í garð þeirrar stéttar sem hér er um fjallað hjá hæstv. innviðaráðherra og þeim sem styðja við þetta frumvarp — sem eru nú ekki margir sem hafa komið hér í dag að mæla með þessu frumvarpi, hv. framsögumaður nefndarálits situr einn uppi með þann kaleik sem er kannski ekki alveg sanngjarnt. Þekkir hv. þingmaður fleiri dæmi þess að rekstrargrundvelli heillar stéttar (Forseti hringir.) sé breytt með jafn afgerandi hætti án þess að neinar bætur komi fyrir?