153. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[00:25]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta er áhugaverð spurning. Dæmi um nálægðarregluna á Íslandi — ég meina, það eru tilskipanir Evrópusambandsins um járnbrautir. Við erum ekki að innleiða þær hér á landi af því að hér á Íslandi erum við ekki með járnbrautarkerfi. Við erum með eina járnbraut, eins og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson benti á, hérna úti á bakka, eldgamla, sem var notuð til hafnargerðarinnar.

Við þurfum ekki að innleiða þær reglur og ég held því fram að við höfum ekki þurft að innleiða þriðja orkupakkann. Af hverju? Það er vegna þess að þar í pakkanum var reglugerð um raforkuviðskipti yfir landamæri. Þá er komin reglugerð um reglur um raforkuviðskipti yfir landamæri. Af hverju ættum við, Ísland, að vera að innleiða reglur um raforkuviðskipti yfir landamæri? Ég segi nei. Það eru engin raforkuviðskipti yfir landamæri. Þá þurfum við ekki á þeim reglum að halda. Miðað við aðstæður á Íslandi þá eigum við ekki að innleiða raforkuviðskipti yfir landamæri af því að við stundum ekki raforkuviðskipti við landamæri. Samt erum við búin að innleiða þessar reglur á Íslandi. Þetta myndi ég telja vera dæmi um ákveðið afsprengi af nálægðarreglunni, þ.e. að það eigi að taka tillit til aðstæðna í ríkjum, við tölum bara um þetta innan ESB, í ríkjunum sjálfum, þannig að það þarf ekki að vera að innleiða reglur og ríkin eiga þá að segja: Nei, heyrðu, við þurfum ekki að gera það því að miðað við aðstæður okkar hér þá þurfum við þess ekki. Ég nefni reglur um skipaskurði — það þurfa að vera skipaskurðir fyrir hendi. Þannig að mér finnst þetta vera dæmi um þetta.

Í þessu máli er ein setning sem er alveg mögnuð í frumvarpinu:

„Rökstutt álit er undanfari dómsmáls fyrir EFTA-dómstólnum, bregðist samningsríki ekki við álitinu.“

Það er það sem er hræðslan, (Forseti hringir.) að fara með málið fyrir EFTA-dómstólinn sem hefur endanlegt vald til að úrskurða um það hvort Ísland sé að brjóta EES-samninginn. (Forseti hringir.) Ég vil halda því fram að Ísland sé ekki að brjóta EES-samninginn með núverandi reglum.