153. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[00:42]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom hér inn á félagsleg undirboð. Það er ein umsögn sem ekki hefur verið rædd hér í þessari umræðu í dag sem ég tel skipta miklu máli að halda til haga. Það er umsögn Alþýðusambands Íslands í málinu, sem er býsna vel grunduð að mínu mati og ástæða til að taka meira tillit til en meiri hluti nefndarinnar virðist telja réttlætanlegt.

Það er þannig, og hefur auðvitað verið þekkt lengi, að það er umtalsverð svört atvinnustarfsemi sem tengist hinu svokallaða skutli þar sem einstaklingar, sem eru augljóslega ekki með réttindi til að stunda leigubifreiðaakstur, eru að veita þjónustu í gegnum ýmiss konar Facebook-síður og skilaboðaforrit. Þetta er, að því er maður best veit, eitthvað sem ríkisstjórnin vill vinna gegn. En eins og með svo margt í störfum þessarar ríkisstjórnar þá ganga aðgerðirnar og ákvarðanirnar beinlínis þvert gegn yfirlýstu markmiði. Þessi atvinnugrein hefur átt í þessari keppni sem er mjög ósanngjörn og á ekki neitt skilið við frjálsa samkeppni því að grundvöllurinn sem aðilar standa á er ójafn og hefur þrifist býsna blómlega lengi vel. Hann mun eflaust halda áfram með einum eða öðrum hætti að þessu frumvarpi samþykktu, verði það niðurstaðan. En að einhverju marki mun sá hópur sem hefur stundað þessa þjónustu á forsendum svartrar atvinnustarfsemi færa sig yfir í eitthvert þeirra rekstrarforma sem að öllum líkindum verða rekin og þjónustuð erlendis frá með tilheyrandi tekjuleka þangað, hann mun eflaust færa sig inn á þessi svið að einhverju marki og bjóða þá e.t.v. upp á hina ýmsu afleiddu þjónustu sem til að mynda hv. þm. Inga Sæland nefndi hér í ræðu sinni fyrr í kvöld.

Félagslegu undirboðin eru síðan eitthvað sem Alþingi er nýbúið að taka á í tengslum við akstur fólksflutningabifreiða, rútubifreiða. Það var gert á 152. þingi, síðasta þingi, en þá var þrengt mjög verulega að þeim reglum, eða réttara sagt reglurnar voru færðar til þess horfs sem flest nágrannalönd okkar horfa til varðandi það að hér væru að koma bílar með ökumanni, til að mynda með Norrænu, sem væru til þess að gera utan við hið íslenska kerfi og gjaldahlið þess og eftirlitshluta. Þetta var samkeppni sem var verulega ósanngjörn gagnvart innlendum aðilum sem fóru eftir innlendum reglum og báru innlendan kostnað, tryggingar og annað slíkt.

Þannig að Alþingi er nýbúið að fara í gegnum regluverk þar sem var sérstaklega spyrnt við fótum, regluverk sem er að töluverðu leyti samhliða þessu. Það eru bara fleiri farþegar í hverjum bíl í því tilviki. Alþingi er nýbúið að fara í gegnum regluverk, uppfæra það og laga til þess að verja stöðu þeirra sem starfa eftir innlendum reglum. En svo fara menn í þveröfuga átt í þessu máli og það er enginn hér sem gerir tilraun til að útskýra hvers vegna. Þessi útskýring um bréfið frá ESA er ekki trúverðug vegna þess að bréfið frá ESA kallar ekki á það að umbylta rekstrarumhverfi þessarar starfsstéttar. Það blasir bara við. Það stenst enga skynsemisskoðun að það eigi að leggja niður heila starfsstétt á grundvelli bréfs frá ESA. Flestir landsmenn hafa ekki hugmynd um hvað ESA er. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Ég gleymdi mér. Tíminn er svo stuttur. Ég bið forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.