153. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[00:59]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Þingmenn Miðflokksins hafa í þrígang komið í veg fyrir að þetta mál næði fram að ganga, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að þvinga það í gegn, láta okkur tala fram á nótt, nýta þetta sem skiptimynt í þinglokaviðræðum. Við höfum ekki látið bjóða okkur neitt slíkt. Við höfum litið á þetta sem stórt prinsippmál og það gerum við sannarlega enn. Þetta er mál sem við seljum ekki fyrir neitt annað. Við seljum ekki afstöðu okkar í þessu máli fyrir það að ná fram einhverju öðru. Ef Alþingi Íslendinga ætlar að samþykkja mál sem snýst um það í raun að leggja af heila starfsstétt sem hefur gegnt mikilvægu hlutverki á Íslandi árum og áratugum saman og gera það án raka og í rauninni í andstöðu við gild rök þá gerum við hvað sem við getum, þingmenn Miðflokksins, til að koma í veg fyrir slíkt.

Nú er málið komið fram í fjórða sinn, komið fram á sama tíma og ríkisstjórnarflokkarnir treysta sér ekki einu sinni til að klára önnur stór mál, sem reyndar eru orðin lítil núna, eins og útlendingafrumvarpið sem kom fram í fimmta sinn. Það var sett til hliðar, því var frestað en þetta mál skal klárað og liggur því fyrir hér á miðju þingi, rétt fyrir jól. Menn hafa væntanlega tekið eftir því að þegar þetta mál dróst fram undir lok þings þá lagði Miðflokkurinn áherslu á að stöðva það, færði rök gegn því, mætti takmörkuðum andrökum en hélt áfram að berjast gegn því að því marki að ríkisstjórnin kom því ekki í gegn, ekki í fyrstu tilraun, ekki í annarri tilraun og ekki í þriðju tilraun. Hver eru viðbrögðin við því? Eru þau að reyna að laga málið? Eru þau að hafa samband við leigubílstjóra, reyna að leita til þeirra um skynsamlegri niðurstöðu? Eru þau að hlusta á rök þeirra sem hafa sent inn athugasemdir eins og Blindrafélagsins, Alþýðusambands Íslands eða annarra? Nei, ekkert slíkt. Viðbrögðin eru þau að reyna að keyra málið í gegn enn fyrr í trausti þess að þingmenn Miðflokksins geti ekki talað um það fram í maí eða júní. Það er líklega rétt mat hjá þeim, það væri erfitt fyrir okkur að ræða þetta mál sleitulaust fram í júní. Við munum engu að síður leggja fram breytingartillögur sem miða eingöngu að því að gefa frest á meðan verið er að skoða áhrif sambærilegra ákvarðana í öðrum löndum og gefa svigrúm, andrými. Ég veit að það er óþægilegt fyrir leigubílstjóra að vera í stöðugu óvissuástandi en ef þessi ríkisstjórn, ef þessi meiri hluti eða aðrir í stjórnarandstöðunni eru ekki einu sinni tilbúnir að samþykkja frest á meðan verið er að meta áhrifin af sams konar löggjöf sem hefur brugðist í öðrum löndum, nú þá vitið þið hvert var markmiðið. Markmiðið var bara að klára málið, algerlega óháð áhrifum þess.

Ég ætla enn að vona, og þess vegna ætla ég ekki að vera of grimmur hérna núna, að þingmenn stjórnarliðsins og vonandi fleiri þingmenn stjórnarandstöðunnar sjái að sér og búi ekki til það fordæmi hér á Alþingi Íslendinga að sett verði löggjöf sem í raun leggur af heila starfsstétt. Slíkt fordæmi má ekki verða til. Við þingmenn Miðflokksins höfum náð að stoppa þetta í þrígang og nú ætlum við að biðja þingmenn stjórnarliðsins og aðra þingmenn stjórnarandstöðunnar um aðeins eitt, að skoða málið á meðan verið er að meta áhrifin af sambærilegri löggjöf annars staðar, löggjöf sem hefur reynst öðrum þjóðum illa, (Forseti hringir.) ekki í einhverju þvermóðskukasti að keyra í gegn frumvarp um að leggja af íslenska starfsstétt. Aðrar stéttir ættu að vita það, frú forseti, að ef þetta mál fer í gegn þá geta þær verið næstar. (Forseti hringir.) Þetta er því ekki aðeins mál leigubílstjóra, þetta er mál verkalýðshreyfingarinnar og allra starfandi stétta á Íslandi.