Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[12:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Sveitarfélög sem eru með útgjaldavöxt sem er í engu samræmi við tekjuvöxtinn verða bara sjálf að taka ábyrgð á því. Þegar sveitarfélögin hækka launin um 25% þá er það á þeirra ábyrgð, þeirra eigin kjarasamningagerð. Það er bara staðreynd að sömu flokkar og tala stíft fyrir því að gjaldskrár hækki í samræmi við verðlag hérna hinum megin við sundið, í Ráðhúsinu, koma hingað inn á þing og tala fyrir raunskattalækkun sömu gjalda þegar ríkið á í hlut. Og já, við höfum verið með raunskattalækkun hér vegna þess að þessi gjöld hafa ekki fylgt verðlagi. Þau hafa ekki gert það. Stundum hafa þau hækkað um 2,5%, eins og t.d. á árinu 2022, og oft um verðlag, en sum árin hafa þau hækkað um 0%. Að tala fyrir því núna þegar Seðlabankinn er tíu sinnum í röð búinn að hækka vexti og við erum að reka ríkissjóð með halla, að við eigum áfram að vera að beita skattalækkun í gegnum krónutölugjöld og skatta — það er bara mikið ósamræmi í þeim málflutningi. Samfylkingin á bara að taka ábyrgð á því að hún hækkar um verðlag annars staðar eins og við erum að tala um að gera hér.