Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[12:39]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að koma hérna upp enda hálfraddlaus, en ég get ekki orða bundist þegar hæstv. fjármálaráðherra stendur hér og talar um ábyrgð í ríkisfjármálum. Hann er að skila fjárlögum með 119 milljarða kr. halla. Hann hefur sett sér það markmið að skila fjárlögum níu ár samfleytt. Hann situr undir ámæli frá seðlabankastjóra Íslands um að Seðlabankinn sé skilinn einn eftir við glímuna við verðbólguna vegna þess að útgjöldin og þenslan sé slík, og hann talar um ábyrgð annarra á meðan staðan er þessi í hans eigin bókhaldi. En þrátt fyrir að halli sé þessi, þrátt fyrir að staðan sé þessi þá er alltaf svigrúm til að gera betur af hálfu ríkisstjórnarinnar gagnvart sjávarútveginum: Ekkert aðhald, engin ábyrgð, allar álögur settar á almenning en langar ræður um ábyrgð.