Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[12:40]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég vil minna á að það er búið að tala um vandamál varðandi tekjustofna sveitarfélaganna í ansi mörg ár. Það er ekki enn búið að laga það og ábyrgðin á því er hérna inni á þingi. Það er ríkisstjórnin sem ræður því í rauninni í sinni framsetningu og tillögum til síns meiri hluta á þingi sem stimplar þær tillögur bara almennt séð. Svo er það kallað ákvörðun þings en ekki ríkisstjórnarinnar, sem er bara endalaust kaldhæðnislegt. Við erum að glíma við það að árið 2018 voru sett lög sem voru gríðarlega vanmetin í kostnaði, sem lendir á sveitarfélögunum að sinna. Kostnaðurinn af þeim lögum, vanfjármögnuðu lögum, er 12–13 milljarðar á þessu ári. Ríkisstjórnin er að koma til móts við það upp á 5 milljarða á næsta ári, ekki á þessu ári heldur á næsta ári, og þá vantar 7–8 milljarða í viðbót. Að sjálfsögðu er það vandamál fyrir sveitarfélögin að bregðast við slíkum mínus sem ríkisstjórnin setur á herðar sveitarfélaganna. Þannig að hæstv. fjármálaráðherra getur ekki komið og sagt: Sjáið hvað sveitarfélögin eru að gera. Það er af því að hæstv. ráðherra er að setja þann bagga á sveitarfélögin.