Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[12:47]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Traust stjórn fjármála sést í hækkandi verðbólgu og hærri vöxtum o.s.frv. Bíddu, er það ekki einmitt það sem við viljum ekki? Þannig virkar það, við viljum ekki háa vexti og viljum ekki háa verðbólgu. Hið gagnstæða væri merki um góð ríkisfjármál. Ég skil alveg að við erum að koma út úr Covid og við séum í halla o.s.frv., en allar tillögurnar sem komu hingað inn á færibandi til þess að bregðast við Covid-ástandinu voru gerðar í mjög hröðum takti. Það var ekkert svigrúm til að rýna hver möguleg áhrif yrðu og þess háttar og margar breytingarnar voru ekki góðar, t.d. í húsnæðismálum. Þar voru bara mjög slæmar breytingar gerðar sem hafa valdið miklum hækkunum á þeim markaði og það er ekki verið að koma með neitt til móts við það ástand sem við erum að glíma við núna. Um það snýst gagnrýnin. (Forseti hringir.) Það er ekki verið að koma til móts við slæmt ástand eins og er. Það þarf líka að horfa til tekjumöguleika sem þarf að ná til baka þar sem fjármagn vegna mótframlaga vegna Covid safnaðist saman og veldur nú verðbólguáhrifum.