Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[12:50]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég þykist vita að stjórnarmeirihlutinn vilji ekkert sérstaklega mikið hlusta á það sem stjórnarandstaðan hefur að segja. En eigum við að hlusta á Seðlabankann? Ætti Sjálfstæðisflokkurinn að hlusta eftir því sem Samtök atvinnulífsins hafa að segja um það hver staðan er? Eigum við að hlýða eitthvað á orð seðlabankastjóra sem bendir á það ítrekað og með æ einbeittari hætti eftir því sem tíminn líður, að ríkisvaldið er ekki í takt við það sem Seðlabankinn er að reyna að gera, til að gera hvað? Jú, að reyna að ná niður verðbólgu og vöxtum. Svo er hér talað um skuldahlutfall ríkissjóðs. Eigum við að ræða um það hvað ríkissjóður er að greiða í vexti af þessum skuldum og hversu hátt hlutfall það er til að mynda í samhengi við Grikkland, sem er ríki sem við viljum almennt ekkert bera okkur mikið saman við? Staðreyndin er sú að það gengur ekki að hér komi hæstv. fjármálaráðherra upp og aðrir ráðherrar og eftir og dreifi ábyrgðinni eitthvert allt annað, til sveitarfélaga til að mynda, þegar það er hávært ákall í samfélaginu öllu um að ríkisvaldið standi sína plikt. Það sem verið er að afgreiða hér núna fyrir þessi jól er ekki í neinu samræmi við það sem þessir aðilar eru að fara fram á.