Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[12:51]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er alveg augljóst hverjir það eru sem stýra landinu, ekki satt, og það er augljóst hverjar áherslur þeirra eru. Það er augljóst hvernig þeir forgangsraða fjármunum og fyrir hverja fyrst. Það er augljóst hvar þeir ætla að sækja peningana, alla vega ekki þar sem er nóg af þeim fyrir. Það er ekki litið á það að hækka bankaskattinn. Það er ekki litið á það að reyna að sækja peninga í stórútgerðina. Nei, frekar á aðstoða með 100 milljóna viðbótargreiðslu fjölmiðla, N4 á Akureyri. Hver skyldi standa á bak við þann fjölmiðil, sem er eiginlega innan gæsalappa hvort það er fjölmiðill eða ekki? En að færa fátækasta fólkinu í landinu nauðþurftir á diskinn sinn — við því er sagt nei. Þetta er svívirðileg framkoma. Er einhver mannúð hér? Er fólkið sett í fyrsta sæti hér? Er verið að taka utan um þá sem þurfa á hjálp okkar að halda? Nei, virðulegur forseti. Nei. Og þessi krónutöluhækkun og allar þessar álögur sem aðallega níðast á þeim sem minnst hafa eru sönnun um það og skýrt dæmi um það.