Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[12:52]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. innviðaráðherra að þessi fjárlög hljóta með einum eða öðrum hætti að endurspegla það að við erum að koma út úr Covid en við erum einmitt að takast á um það með hvaða leiðum við eigum að fjármagna þá hluti, hvort við eigum að gera það með því að sækja skattfé til þeirra sem raunverulega geta borið slíkar byrðar og hafa jafnvel hagnast í þessu ástandi eða hvort það á að sækja það til almennings. Hæstv. innviðaráðherra sagði að allar þjóðir í kringum okkur væru að bregðast við Covid en þær hafa einmitt verið að gera það með því að sækja í þá sjóði sem eru digrastir. Honum væri hollast að horfa t.d. til Norðmanna í því sambandi. En besta einkunnin um það sem við erum að greiða atkvæði um núna er auðvitað pirringur hæstv. fjármálaráðherra sem gjammar hér fram í aðra hverja ræðu og sýnir að hann hefur ekki góða samvisku.