Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[12:57]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Útgjöld ríkisins eru nánast að verða stjórnlaus og við verðum að eiga fyrir þeim, sagði hv. þingmaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Guðrún Hafsteinsdóttir, hér áðan í atkvæðaskýringu. Það er þessi sami hv. þingmaður sem ásamt meiri hlutanum ákveður að falla frá möguleikum ríkissjóðs til þess að hækka gjald á fiskeldi um 450 milljónir allt næsta ár af þeirri einu ástæðu að hagsmunasamtök fiskeldis báðu um sparnað fyrir sína umbjóðendur. Þetta er sú atvinnugrein sem seint verður talin vera á vonarvöl. Þetta var heimild til hækkunar en ekki ákvörðun um hækkun. Við megum vænta niðurstöðu heildarendurskoðunar núna eftir áramót en meiri hlutinn ætlar hér að falla frá möguleikum ríkissjóðs til að afla tekna upp á nærri hálfan milljarð, alveg sama hver niðurstaðan verður. Þarna er verið að falla frá skýrum tekjumöguleikum sem við þurfum á að halda. Eða hvað? Er ríkissjóður svona stríðalinn að við þurfum ekki á tekjunum að halda?