Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[13:03]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við erum hér að tala um hver þurfi að bera byrðarnar og hver fái að losna við þær í samfélaginu þegar kemur að skattheimtu. Þegar kemur að því hver þarf að bera þyngstu byrðarnar af verðbólgunni, hver er það? Það eru heimilin í landinu sem borga hærri afborganir af lánunum sínum, sem fá nú gríðarmiklar hækkanir á leiguna sína. Þetta er fólkið sem þarf núna líka að sæta gríðarmikilli hækkun á krónutölugjöldum sem við vitum að fer beint út í verðlagið í stað þess að hækka fjármagnstekjuskatt á ári þar sem við sjáum að það er methagnaður í fjármagnstekjum annað árið í röð. Við sáum það hvernig kakan skiptist í efnahagsþrengingunum í Covid. Þar fengu ríkustu tekjutíundirnar mest í sinn hlut, margfalt meira en þær sem eru neðar í tekjustiganum. En núna á aftur að sleppa þeim við að greiða sanngjarnt endurgjald til samfélagsins og almenningur er enn og aftur látinn borga brúsann. Við erum bara að tala um réttlætismál hérna, virðulegi forseti.