Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[13:04]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér kom fram áðan hjá hæstv. ráðherra að við værum með eina lægstu verðbólgu í Evrópu. Af hverju erum við með svona lága verðbólgu á Íslandi miðað við Evrópu? Hver er ástæðan? Jú, ástæðan eru orkumálin, það er orkukrísa í Evrópu. Við stjórnum enn orkumálum okkar sjálf. Samt er Alþingi Íslendinga búið samþykkja lög, raforkuviðskipti yfir landamæri. Það eru engin raforkuviðskipti yfir landamæri. Það var gert með samþykkt þriðja orkupakkans. Lág verðbólga er ekki vegna þess að ríkisstjórnin sé að standa sig svo vel. Það er vegna þess að við búum enn þá við ódýra orku, enn þá við ódýra raforku.

Því var líka haldið fram að hér væri mikill uppgangur. Það er ekki vegna ríkisstjórnarinnar. Það er vegna þess að ferðamenn koma hérna aftur til að sjá ótrúlega fallegt land, ótrúlega fallega náttúru. Það er ekki vegna ríkisstjórnarinnar. Uppgangurinn skýrist fyrst og fremst af því. En hvað er ríkisstjórnin að gera? Jú, hún er með krónutöluhækkanir á vörum og hækkar áfengisgjaldið. Áfengisgjaldið er nú orðið það hátt að það er varla hægt að halda ráðstefnu hérna á Íslandi. Það er ekki einu sinni hægt að halda fund. Þetta er ekki ríkisstjórninni að þakka, hvorki verðbólga né uppgangurinn.