Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[13:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Mér heyrist hér sagt að það væri vont að við kæmum með tillögur sem myndu sporna gegn þenslu en það er eitthvað annað en var sagt hér fyrr í dag. Hér er einfaldlega verið að leggja til að við tökum lágmarksvörugjald á rafmagnsbifreiðar. Þegar við tökum saman aðflutningsgjöld annars vegar og rekstrarkostnað hins vegar á rafmagnsbifreiðum og öðrum bifreiðum í bílaflotanum er þar himinn og haf, svo mikill munur þar á milli hvað rafmagnsbílarnir eru miklu hagkvæmari í rekstri og miklu meiri ívilnanir af hálfu stjórnvalda að þó að dregið sé smávegis úr þeim mun er langt frá því að hægt sé að halda því fram að hvatarnir séu ekki lengur til staðar. Það er hins vegar ákveðið vandamál að framleiðslukostnaður þessara bifreiða lækkar ekki í samræmi við væntingar og ef það gerist ekki á næstu árum þá er það verulegt áhyggjuefni fyrir okkur. En vonandi mun aukinn þrýstingur á árangur í loftslagsmálum verða til þess að framleiðslukostnaður þessara (Forseti hringir.) umhverfisvænu bíla fari lækkandi þannig að við getum farið að koma á einhverju eðlilegu gjaldaumhverfi fyrir samgöngur á Íslandi.