Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:44]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Forseti. Nú aukast áhyggjur mínar dálítið vegna þess að af orðum formanns fjárlaganefndar má skilja sem svo að nefndin hafi ekki réttar upplýsingar í málinu. Hv. þingmaður talar eins og Ísland þurfi að standa við eitthvað með að innleiða þetta. Þetta ákvæði ESR-reglugerðar Evrópusambandsins er valkvætt. Það eru nýju aðildarríki ESB auk Íslands og Noregs sem mega flytja heimildir úr ETS-kerfinu yfir í ESR-kerfið. Mega — eiga ekki að gera það. Við þurfum því ekki að innleiða þetta, sem sést eiginlega skýrast á því að af þessum níu aðildarríkjum ESB sem mega nýta þetta eru ekki nema sex sem hafa ákveðið að gera það. Eru hin þrjú ekki að standa við eitthvað? Nei, þau eru bara að nýta rétt sinn til að vera með sjálfstæð markmið, vera með sjálfstæðan metnað í ESR-kerfinu frekar en að grípa þennan 4 prósentustiga afslátt sem er hægt að fá með þessari bókhaldsbrellu, (Forseti hringir.) 4 prósentustiga afslátt af markmiðum í aðgerðaáætlun stjórnvalda. Þekkjandi ríkisstjórnina ágætlega þá trúi ég henni bara algjörlega til þess að nýta þennan afslátt upp í topp til að þurfa að gera minna. (Forseti hringir.) Við þurfum aðgerðir, ekki bókhaldsbrellur.