Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, eins og ég sagði áðan og er alveg skýr með það; þessi fjárhæð var sett á sama lið og nú þegar eru fjármunir á vegna fjölmiðlastyrkja til einkarekinna fjölmiðla. Það er það sem skiptir máli í þessu samhengi. Meiri hlutinn var að beina ráðherra í þann farveg, sem við stöndum með. Við í meiri hlutanum viljum, og ég ber engan kinnroða fyrir því, efla sjónvarp og framleiðslu sjónvarpsefnis í hinum dreifðu byggðum. Það hefur komið fram að það er ekki bara þessi eini. Við hefðum bara sagt N4 ef við hefðum ætlast til þess að það yrði bara til N4. Það er bara þannig. Eins og ég sagði líka áðan er þetta umræða sem spinnst m.a. þegar við erum almennt að ræða um fjölmiðla, um aukninguna til RÚV, um ekkert aðhald þar o.s.frv. Þá vaknar þessi spurning um hvað við eigum að gera og hvernig við getum gert það. Þetta er styrkumsókn eða beiðni sem kemur inn, það er alveg rétt, og á þessum tíma. Hún ýtti bara enn frekar við okkur. Jú, við viljum reyna að styðja við fjölmiðla í hinum dreifðu byggðum og sérstaklega þá sem eru að framleiða sjónvarpsefni.