Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:54]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Hér eru auðvitað á ferðinni talsvert miklar eftiráskýringar sem fara einmitt af stað vegna þess að það verður umræða í fjölmiðlum um málið. 100 milljónir — heildarpotturinn til fjölmiðla nær ekki 400 milljónum. Stærstu fjölmiðlasamsteypur landsins sem hafa tugi manna í ritstjórn fá 60–70 milljónir á ári. Hvernig átti að skipta þessum 100 milljónum á milli tveggja fjölmiðla? Tveir litlir fjölmiðlar sem framleiða annars vegar vissulega sjónvarpsefni, en í hinu tilfellinu er um að ræða sjónvarpsefni sem fer beint inn á vef og er framleitt með tiltölulega litlum kostnað. Hvernig er hægt að réttlæta skekkjuna þarna á milli? Og í annan stað langar mig að spyrja, vegna þess að það kom fram í fjölmiðlum í gær, í Stundinni, að Byggðastofnun væri einn þeirra aðila sem ætti hlut í N4: Hvernig fer það þá heim og saman að þessi sama Byggðastofnun á að gera einhvers konar úttekt á því hvernig fjölmiðlaumhverfið er á landsbyggðinni þegar hagsmunir stofnunarinnar eru augljóslega samofnir því svari sem kæmi út úr slíkri skoðun?