Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:32]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég var einu sinni aðstoðarsaksóknari í efnahagsbrotadeild og þá var mikið verið að fjalla um hvernig væri verið að plata fólk, og það er blekking, blekking er mjög mikilvægt atriði varðandi fjársvik t.d. og ég er ekki að tala um að það eigi sér stað hér, alls ekki, en ég get ekki annað séð en að Samfylkingin hafi verið blekkt, svo ég segi það bara alveg út. Samfylkingin leggur fram breytingartillögu um 3 milljarða, forsætisráðherra segir að það sé verið að trompa það, eins og hv. þingmaður orðaði það, það sé verið að gera betur og viti menn, það kemur 600 milljóna hækkun, ekki meira, og eins og segir í nefndaráliti 1. minni hluta, með leyfi forseta:

„Er það 2,4 milljörðum kr. hærri upphæð en ríkisstjórnin leggur nú til við 3. umr. og hefur í fjölmiðlum stillt upp sem 5 milljarða kr. fjárveitingu.“

Þ.e. þið komið aftur með sömu breytingartillögu sem er 2,5 milljörðum kr. betri og það er nákvæmlega það sem er munurinn. Blekkingin snerist um 2,4 milljarða.

En mig langar að spyrja hv. þingmann um annað atriði. Það er varðandi blessaðan Kvikmyndasjóð. Daginn fyrir uppskeruhátíð evrópskra kvikmyndagerðarmanna í Hörpu átti Kvikmyndasjóður að fá 250 millj. kr. viðbótarframlag frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu. Eins og hv. þingmaður fór yfir er þetta búið að minnka eftir uppskeruhátíðina, komið niður í 150 millj. kr. og það á að taka úr öðrum málaflokkum og þar sem þetta fjármagn er vistað í öðrum málaflokkum en Kvikmyndasjóði þá liggur fyrir að það verður óskað eftir millifærslunni á fjármagninu í fjáraukalögum fyrir árið 2023. Nú þekki ég ákvæði 26. gr. um fjáraukalög. Það eru tímabundin, óviss og óvænt fjárútlát. Þetta eru augljós brot á 26. gr. laga um opinber fjármál. (Forseti hringir.) Það er búið að brjóta gegn ákvæðinu fyrir fram fyrir næsta ár meira að segja. (Forseti hringir.) Þegar við förum að fjalla um fjáraukalög á næsta ári þá munum við fjalla um þetta. Það er búið að gera það fyrir fram. Hvert er álit hv. þingmanns á þessu?