Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:40]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta eru góðir punktar sem hann kom á framfæri, líka að við séum loksins að taka samtalið um ungt fólk í fjárlögum sem er eitthvað sem ég hef ekki tekið mjög mikið eftir þegar við erum að tala um ríkisfjármál, að þau séu einhvern veginn sett í samhengi við ungt fólk og hvernig ungt fólk hefur það í dag og hvað þetta bitnar illa á þeim. Ef við tölum t.d. bara um fasteignamarkaðinn fyrir ungt fólk í dag þá er hann náttúrlega gríðarlega íþyngjandi. Það er erfitt að komast að og við skulum ekki einu sinni nefna þessi „bidding wars“, með leyfi forseta. Það er ótrúlega erfitt að vinna þá slagi við fasteignafélög og bara lögaðila yfir höfuð. Svo er náttúrlega líka fullt af bröskurum á fasteignamarkaðnum sem kaupa upp fasteignir og leigja síðan út á Airbnb. Þess vegna pæli ég líka í því hvernig við getum náð tökum á húsnæðismarkaðnum án þess að grípa til einhverra svona íþyngjandi ráðstafana, eins og boða og banna og einhvers svoleiðis, og án þess að hækka stýrivexti endalaust. Ég held að svarið liggi ekkert þar. Ég er að pæla hvort svarið væri t.d. að því fleiri fasteignir sem einstaklingur á því hærri fasteignaskatt borgar hann, bara til að minnka hvatann til að kaupa upp fullt af íbúðum, leigja þær síðan út og skapa einhverja bólgu á markaðnum.

Ég var að pæla hvað hv. þingmanni fyndist um það, hvort það væri íþyngjandi fyrir þessa einstaklinga? Einhvers staðar þarf að byrja að skattleggja fólk fyrst við viljum ekki fara út í hærri fjármagnstekjuskatt og ég held að þetta sé bara ágætisbyrjun, reyna að ná aðeins tökum á húsnæðismarkaðnum án þess þó að grípa til boða og banna og banna fólki að kaupa t.d. fleiri en þrjár fasteignir.

(Forseti (AIJ): Þar sem þingmálið er íslenska þá þurfa íslenskar þýðingar að fylgja. Með leyfi forseta má vitna í erlend tungumál en þá þarf þýðing að fylgja.)