Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:33]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Það sjá það allir sem vilja sjá að tekjustofnar sveitarfélaganna eru ekki í góðum málum af fjölmörgum ástæðum. Þegar ég var í umræðu um atkvæðagreiðslu við bandorminn hérna fyrr í dag og var að tala um tekjustofna sveitarfélaga þá kallaði fjármálaráðherra fram í að þau væru með sjálfstæða tekjustofna. — Nei, virðulegi forseti, sveitarfélög eru ekki með sjálfstæða tekjustofna. Þeir eru takmarkaðir, mjög takmarkaðir. Þegar hins vegar löggjafinn, sem er með algjört einræði í rauninni í tekjustofnum, skattlagningu, bara samkvæmt stjórnarskrá, ákveður að setja lög um ákveðin réttindi og þjónustu sem sveitarstjórnir sinna samkvæmt öðrum lögum, þá virðist sagan hafa verið sú að því hafi aldrei fylgt nægileg fjármögnun. T.d. þegar grunnskólar voru færðir til sveitarfélaganna var kannski í upphafi gott mat á því hversu mikil tekjuskiptingin þyrfti að vera milli ríkis og sveitarfélaga til þess að færa skólana yfir, en svo bætir Alþingi við skólaþjónustuna og kröfurnar á sveitarfélögin án þess að því fylgi fjármagn. Það sama er núna með nýjasta málið, málefni fatlaðra, sem er svo sársaukafullt og augljóst að um vanmat á kostnaði er að ræða vegna þeirra verkefna. Og þaðan koma þessir 5 milljarðar. En greiningar á kostnaði sýna okkur að þetta er miklu kostnaðarsamara, rúmlega helmingi meiri kostnaður er það.