Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:40]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Mig langar að tala örstutt um mjög þröngt afmarkaðan þátt í þessu máli, sem er á þskj. 118, eina af þeim breytingartillögum sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur fram nú við 3. umr. fjárlaga. Þessi breytingartillaga snýst um það að ráðherra verði heimilt að ráðstafa losunarheimildum sem eru umfram í ETS-kerfinu inn á hitt stóra kerfið sem er í grófum dráttum hægt að segja að aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar nái utan um. Fyrir það fyrsta vil ég undirstrika að þessi tillaga er allt of seint fram komin, hún birtist hér í gærkvöldi. Væntanlega erum við að klára fjárlög núna fyrir helgi og það hefur ekki gefist tími til að rýna þessa tillögu eða greina hana. Það hefur ekki gefist tóm fyrir umsagnaraðila að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Engu að síður náðu Ungir umhverfissinnar að senda okkur umsögn í dag þar sem þau gripu akkúrat þetta atriði og biðja okkur bara einlæglega að samþykkja þetta ekki núna fyrir jól. Þau eru með ýmsar efnislegar athugasemdir en benda kannski umfram allt á það að þessi örstutti tími sé eiginlega óásættanlegur.

En efnislegu athugasemdirnar, fyrst aðeins að þeim. Hvað þýðir þetta? Nú veit ég ekki hversu vel salurinn er að sér í ólíkum kerfum loftslagsmála sem Ísland tekur þátt í, en þeirri losun sem á sér stað á Íslandi er hægt að skipta í þrjá hópa. Sá fyrsti, ETS-kerfið, er samevrópskt viðskiptakerfi sem nær utan um staðbundinn iðnað eins og álverin okkar og millilandaflug. Þar er búið að útbúa kerfi sem rekur sig nokkuð sjálft. Það er með samdráttarmarkmið og það er ákveðin verðmyndun sem á sér stað á þessum loftslagskvóta. Það fækkar alltaf heimildum ár frá ári þannig að það er innbyggður hvati fyrir þessi fyrirtæki að draga úr losun. Svo erum við með kerfi sem er skammstafað ESR sem stendur fyrir „Effort Sharing Regulation“, með leyfi forseta, sem myndi útleggjast sem reglugerð um það að deila byrðunum. Það lýsir því ágætlega hvað þetta snýst um. Við þurfum öll að gera eitthvað og þarna hafa Evrópuríki sameinast um að allt það sem á sér stað í samfélaginu fyrir utan það sem fellur undir ETS-kerfið fari í þetta ESR-kerfi. Hér á Íslandi er stærsti liðurinn í þessu losun frá samgöngum, landbúnaður og kæligös, minnir mig. Síðan er þriðji flokkurinn sem er kannski minna fjallað um þessa dagana en það er losun vegna landnotkunar og breyttrar landnotkunar. Þar eru þau dæmi sem við þekkjum kannski best, endurheimt votlendis og skógrækt og landgræðsla.

Gott og vel. Hér erum við að tala um það að fyrir réttum áratug, þegar gengið var frá ESR-regluverkinu, var sett inn í það undanþáguheimild fyrir þau níu Evrópusambandsríki sem mestan metnað hefðu sett sér í loftslagsmálum til þess að leyfa heimildum að flæða á milli ETS og ESR sem þýddi í raun að ETS-kerfið var ekki að virka almennilega og það var hellingur af umframheimildum þar. Það var hægt að bókfæra þær heimildir hinum megin og þar með þurfti ekki að fækka bílum jafnmikið eða hvað það var; það var hægt að bókfæra umframheimildirnar úr ETS inn í ESR. Þetta hafa sex af þessum níu Evrópusambandsríkjum valið að gera, þrjú þeirra hafa hins vegar ekki tekið þetta upp í landslög hjá sér vegna þess að þessi undanþáguheimild hefur verið harðlega gagnrýnd af umhverfisverndarsamtökum um alla Evrópu. Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar er þetta kallað sveigjanleikaheimild en á ensku er þetta yfirleitt kallað, af umhverfisverndarsinnum, loophole, með leyfi forseta, glufa. Þarna myndast nefnilega möguleiki fyrir lönd að nota umframheimildir í ETS til að draga úr raunverulegum aðgerðum í öðrum hlutum samfélagsins. Krafa umhverfisverndarhreyfingarinnar í Evrópu hefur verið skýr: Út með þessa glufu. Það er því mjög varhugavert að við séum að ræða það hér í þessum sal að lögfesta heimild fyrir ráðherrana til að nýta þessa glufu án þess að nokkur eiginleg eða almennileg efnisleg umræða hafi átt sér stað. Þetta benda Ungir umhverfissinnar á í umsögn sinni.

Þegar ég átti orðastað við hv. formann fjárlaganefndar fyrr í dag þá spurði ég hana hvers vegna við værum að taka þetta upp og hvort þau væru haldin þeirri ranghugmynd, vildi ég segja, að Íslandi bæri að taka þetta upp. Þá sagði hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir að það væri kannski frekar sérkennilegt að vera búin að semja um þetta kerfi eins og það er og standa svo ekki við það, þetta voru hennar orð, eins og við værum að svíkjast undan einhverju með því að opna ekki fyrir þessa glufu.

Þá langar mig bara að benda á tvennt, frú forseti: Annars vegar, sem ég reyndar benti hv. þingmanni á hér fyrr í dag, vil ég benda á upplýsingasíðu Evrópusambandsins. Sá hluti framkvæmdastjórnarinnar sem fer með loftslagsmál er með upplýsingasíðu um ESR-kerfið fyrir árin 2021–2030. Þar segir skýrum orðum að þetta sé valkvætt, að þetta bjóði sem sagt upp á þann valkost að færa heimildir. Það er ekkert skyldubundið við þetta, ríki geta valið að taka þetta upp eða sleppt þessu ef þau vilja vera með raunverulegan metnað frekar en bókhaldslegan. Svo er annað skjal sem er hægt að vísa til og það er greinargerð með frumvarpi hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra á 150. löggjafarþingi, um breytingu á lögum um loftslagsmál, 718. mál þess þings. Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Ríki geta fengið heimild til að færa tiltekið magn losunarheimilda úr viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir til að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt reglugerðinni […] Misjafnt er hversu há sú heimild er fyrir einstök ríki. Hvað Ísland varðar nemur fyrrnefnda heimildin 4% losunar innan gildissviðs reglugerðarinnar.“

Ég vek athygli forseta á því að hér stendur: Ríki geta fengið heimild. Það er ekki þannig að það eigi að lögfesta þessa heimild, það má færa hana í íslenskan rétt.

Það sem ég hef áhyggjur af, forseti, er kannski umfram allt tíminn. Það er verið að leggja þetta fram á lokametrum þingsins með það fyrir augum að lögfesta þetta og enn er, það er kannski ósanngjarnt að segja það, einhverjum spurningum ósvarað. Það hefur nefnilega ekki gefist neitt tóm til að spyrja þeirra. Ég er að halda fyrstu ræðuna í þessum sal um álitaefnin í þessu. Ef stjórnarliðar fá sínu framgengt þá er planið væntanlega að gera þetta að lögum á morgun. Vandinn er náttúrlega sá að þetta flæði á milli ólíkra kerfa er bara mjög réttilega gagnrýnt fyrir að geta dregið úr metnaði fyrir raunverulegum samdrætti, að í staðinn fyrir aðgerðir fari ríkið bara í að nýta sér svona ódýr bókhaldstrix. Hvað Ísland varðar er þetta sérstaklega hættulegt vegna þess að þetta væri náttúrlega bara algjör himnasending fyrir ríkisstjórnina sem bæði sýnir ekki í verki þann metnað sem hún segist hafa í loftslagsmálum heldur er hún, nýbúin með sitt fyrsta heila ár frá kosningum, enn í stökustu vandræðum með að uppfæra aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Með því að nýta þessa glufu til fulls og taka ónýttar heimildir í ETS-kerfinu og demba þeim inn í aðgerðaáætlunina fær ríkisstjórnin allt í einu ágætan afslátt af þeim metnaði sem þarf að setja í áætluninni. Ef ég væri að reyna að smíða einhverja útskýringu á því hvers vegna liggur á að gera þetta núna fyrir áramót, en þetta er aftur eitthvað sem engin nefnd hefur fengið tóm til að rannsaka, ef ég væri að reyna að teikna upp útskýringu, þá myndi ég skoða hvort eitthvað sé að breytast Evrópumegin á næstunni. Og það er náttúrlega að gerast. Við vitum að loftslagspakki Evrópusambandsins, með leyfi forseta, „Fit for 55“, pínu ömurlegt en hvað eigum við að kalla það? Fær í 55 eitthvað svoleiðis? Eða til í tuskið fyrir 55? Þessi loftslagspakki Evrópusambandsins er að verða til á þessum dögum. Hann hefur verið að þroskast í samtali milli Evrópuþingsins og ráðherraráðsins og framkvæmdastjórnarinnar og þar er að nálgast endanleg mynd pakkans. Hvað gerist ef áralöng barátta evrópskra umhverfisverndarsamtaka fyrir því að loka þessari glufu ber árangur? Þá verður ekki lengur hægt að fullnýta þessi bókhaldstrix til að draga úr raunverulegum metnaði fyrir samdrætti. Gæti það verið ástæðan fyrir því að íslenska ríkisstjórnin vill koma þessu í lög sem fyrst til að vera búin að tryggja sér réttinn til að fullnýta þessa heimild áður en heimildin hverfur vegna þess að væntanlega yrði erfiðara fyrir Evrópusambandið að snúa aftur af þessu ef búið er að lögfesta þetta hér?

Eins ætti Ísland að beita sér á allt annan hátt ef sú staða kemur upp að það verður einhver rosalegur haugur af umframheimildum í ETS-kerfinu. Ef ETS-kerfið er að fyllast af umframheimildum þá gerist tvennt — nei, það gerist eitt en það er merki um annað. Það er merki um það í fyrsta lagi að það sé of mikið af heimildum. Ef kerfið er ekki að virka af nógu miklum krafti á verksmiðjurnar sem falla undir það, þannig að þær þurfi ekki að kaupa sér losunarheimildir, þarf bara að þurrka þessar heimildir út til að smyrja hjólin aftur. Það sem gerist líka, þegar svona mikið er af umframheimildum í ETS-kerfinu, er að verðið á þeim lækkar. Það hefur neikvæð áhrif á virkni þess sem efnahagslegs hvata fyrir stóriðjuna til að skipta í grænni framleiðsluferla. En þetta þýðir líka að það yrði alveg ofboðslega ódýrt fyrir ríkisstjórnir að nýta sér þessa glufu, að kaupa bara á spottprís slatta af ónýttum heimildum í ETS-kerfinu, flytja yfir í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar og plástra þannig upp í metnaðargapið sem er alltaf á milli aðgerða og orða hjá ríkisstjórn Íslands. Þetta er vandinn. Það eru svo margar spurningar sem þarf að spyrja varðandi þetta, og það er allt of margt óljóst í þessari breytingartillögu meiri hluta fjárlaganefndar, að það er fullkomlega galið að ætla að klára þessa breytingu á engum tíma og án umræðu. Ég vona að einhver í stjórnarliðinu sé með sperrt eyrun og taki þessar tillögur hreinlega af dagskrá áður en við göngum til atkvæða.