Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:56]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég ætla að koma hingað örstutt upp og ekki að tala um spillingarmál sem þekur daginn í dag, um 100 milljónir ríkisstjórnarflokkanna til að fara í sértækar aðgerðir fyrir bestu vini aðal þegar kemur að fjölmiðlum. Ég ætla ekki að ræða um það að ríkisstjórnarflokkarnir hafa hætt við boðaða hækkun matvælaráðherra á fiskeldi heldur miklu frekar að benda á mjög athyglisverða og mjög snarpa greiningu og gagnrýni Samtaka atvinnulífsins sem endurtaka í rauninni þá gagnrýni sem þau settu fram strax þegar fjárlagafrumvarpið lá fyrir 13. september síðastliðinn. Þá kom mjög hörð gagnrýni frá Samtökum atvinnulífsins, m.a. á fjárlagafrumvarpið. Það er ekki hægt að segja að það sé verið að draga úr þeirri gagnrýni. Það er margt þarna sem ég kannast vel við því það er nákvæmlega sú gagnrýni sem við í Viðreisn höfum verið að setja fram, miklar áhyggjur okkar af auknum halla ríkissjóðs og það núna viðvarandi a.m.k. til næstu fimm ára. Það er verið að setja ábyrgðina á herðar næstu ríkisstjórnar að tækla þennan vanda. Það var nefnt í dag af hálfu þingmanns Sjálfstæðisflokksins, réttilega, að útgjöldin væru orðin stjórnlaus og það þyrfti að fara að vinna gegn þeim. Það er ríkisstjórnin ekki að gera. Síðustu ár hafa verið fordæmalaus í útgjaldaaukningu og það er í sjálfu sér í lagi að auka útgjöld ef viðkomandi, ríkið, á fyrir þeim og það er líka markmið og aðgerðaáætlun sem liggur fyrir til að við getum þá aukið þjónustu og lífsgæði fólks. Það liggur ekkert slíkt fyrir af hálfu ríkisstjórnar. Það er bara verið að dreifa fjármagni án stefnu, án fyrirheits. Það er það sem er alvarlegt.

Ég vil fara stuttlega yfir þetta álit frá Samtökum atvinnulífsins sem ég vil að langmestu leyti taka eindregið undir, með leyfi forseta:

„Betri efnahagshorfur í ár og á því næsta eru til þess fallnar að auka tekjur og draga úr ýmsum kostnaði hins opinbera, svo sem vegna minnkaðs atvinnuleysis og aukinna umsvifa almennt.“ — Ég tel þetta fagnaðarefni. — „Engu að síður gera fjáraukalög, sem nýlega voru lögð fram á Alþingi, ráð fyrir því að heildarútgjöld ríkissjóðs verði tæplega 55 milljörðum króna hærri á þessu ári […] Þar vegur aukning vaxtagjalda þungt“ — eins og við höfum ítrekað bent á í Viðreisn — „en áætlað er að þau aukist um 37 milljarða kr. og komi til með að nema 104 milljörðum í heild á árinu sem er að líða.“

Ég undirstrika það að við Íslendingar erum með hæstu vaxtagjöld miðað við landsframleiðslu þegar kemur að samanburði við vinaþjóðir okkar innan OECD.

Síðan segja samtökin að það sé mat þeirra að meðbyr efnahagsframvindunnar hafi verið illa nýttur. Meðbyr efnahagsframvindunnar hefur verið illa nýttur, eins og kom fram m.a. í haust. „Staðan gæti verið enn betri — ráðdeildin þyrfti að vera meiri enda sé ætlunin að beita ríkisfjármálunum til að draga úr þenslu og sporna gegn verðbólgu.

Þrátt fyrir yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að fjárlög ársins 2023 sporni gegn þenslu í hagkerfinu er, þegar að er gáð, lítið aðhald að finna á útgjaldahlið frumvarpsins. Umsvif nýrra og aukinna útgjalda eru til að mynda þau sömu og umsvif aðgerða sem boðaðar eru gegn þenslu. Þá er ótalin aukning bundinna útgjalda sem námu 38 milljörðum kr. í fjárlagafrumvarpinu. Verðbólga, viðskiptahalli og hagvöxtur kalla heldur á aukið aðhald frekar en hið gagnstæða.“

En hér skilar ríkisstjórnin að mínu mati ekki bara auðu heldur frekar kyndir undir ógnina sem hlýst af verðbólgu fyrir fólk, heimili og fyrirtæki landsins.

Síðan fara þau yfir boðaða útgjaldaaukningu ríkisins, ríkissjóðs, á milli fjárlaga 2022 og 2023 og það er 68 milljarða aukning. Veruleg aukning er boðuð nú og verða framlög m.a. aukin til tiltekinna málaflokka, benda þau á. „Alls nemur útgjaldaaukningin tæplega 53 milljörðum króna frá framlagningu frumvarpsins í september síðastliðnum – aukningin nemur því alls 121 milljörðum.“

Svo segja þau:

„Það fer því lítið fyrir yfirlýstu markmiði ríkisstjórnarinnar að finna svigrúm til nýrra verkefna „með því að tryggja umbætur í ríkisrekstrinum með markvissu endurmati útgjalda … “ „Ekki verður séð að tilraun hafi verið gerð til að forgangsraða fjármunum í auknum mæli til þessara þörfu verkefna með einum eða öðrum hætti og koma þannig böndum á útgjaldavöxt. Endurmat útgjalda og árangurstengd fjárlagagerð gætu hér leikið lykilhlutverk, sér í lagi í árferði þar sem ábyrgð og festa í ríkisfjármálum skiptir höfuðmáli til að styðja við peningastefnuna.“

Það er verið að auglýsa eftir ábyrgð og festu til að styðja við peningastefnuna til þess m.a. að aðilar vinnumarkaðarins og Seðlabanki Íslands þurfi ekki að standa ein í því að verja heimili og fyrirtæki og atvinnulífið fyrir verðbólgu og síðan vöxtunum sem koma vegna hennar.

„Líkt og áður segir ættu bættar efnahagshorfur að skila auknum tekjum í ríkiskassann. Í fjáraukalögum er þess vænst að tekjur ársins 2022 verði 115 milljörðum hærri en gert var ráð fyrir, afkoma ríkissjóðs batnar því umtalsvert frá fyrri áætlunum þrátt fyrir útgjaldavöxt. Því er hins vegar ekki til að dreifa þegar kemur að breytingartillögu fjármála- og efnahagsráðherra við fjárlagafrumvarp fyrir árið 2023. Tekjur aukast vissulega, en þó ekki nóg til þess að vega á móti þeim auknu útgjöldum sem boðuð eru. Halli á rekstri ríkisins eykst um 29 milljarða frá því sem áætlað hafði verið, og kemur til með að nema 118 milljörðum króna ef fram fer sem horfir,“ — síðan er náttúrlega fjárlaganefnd búin að bæta í, þetta verður í kringum 120 milljarða hið minnsta — „og nálgast 3% af vergri landsframleiðslu árið 2023 í stað 2,3%, líkt og stefnt var að í september.“

Við höfum alveg tekið tillit til þess að við erum búin að vera í heimsfaraldri og við höfum stutt það sem þurfti að gerast en það var á sínum tíma ekkert svigrúm í rekstrinum til að bregðast við þessari niðursveiflu. Samtökin halda áfram:

„Allar aðgerðir stjórnvalda grundvölluðust því á aukinni lántöku. Ef tekið hefði verið tímanlega á undirliggjandi rekstrarvanda …“ — og við skulum hafa það hugfast, það sem við í Viðreisn höfum alltaf verið að benda á, ef það hefði verið tekið tímanlega á þessum rekstrarvanda ríkissjóðs — af því að ósjálfbær ríkissjóður birtist okkur löngu fyrir Covid. Það var ekki byrjað að taka af festu og ábyrgð á stöðu ríkissjóðs fyrir Covid þannig að Samtökin segja, og ég tek undir það:

„Ef lántaka er notuð til að fjármagna viðvarandi hallarekstur er sjálfbærni ríkisfjármála ógnað og því ætti það að vera kappsmál að taka á undirliggjandi vanda — að eytt er um efni fram.“

Svo kemur ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir hérna á milli 2. og 3. umr. og það er tillaga um að auka heimild ríkissjóðs til erlendrar lántöku úr 200 milljörðum í 220 milljarða. Það er verið að taka lífskjörin að láni. Síðan benda samtökin á, eins og þau gerðu í umsögn sinni um fjárlagafrumvarpið strax í haust, að útlit væri fyrir að aðhald ríkisfjármála myndi aukast hægar milli áranna 2022 og 2023 en mat Seðlabankans frá því í maí hafi gefið til kynna.

„Í nýjasta hefti Peningamála Seðlabankans er nú gert ráð fyrir lítillega meiri aukningu á aðhaldi árið 2022, en líkt og komið hefur verið inn á er reiknað með betri afkomu í ár en áður. Aðhaldsstigið telst aukast áfram árið 2023 en þó aðeins lítillega, eða sem nemur 0,5% af landsframleiðslu. Sé ætlun ríkisstjórnarinnar raunverulega sú að fjárlög stuðli að því að draga úr þenslu og sporna gegn verðbólgu er svigrúm til frekari útgjaldaaukningar ekkert. […]

Enn er það meginmarkmið opinberra fjármála að stöðva hækkun skuldahlutfalla en útlit er fyrir að skuldahlutföll verði nær þau sömu og í samþykktri fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027, eða um 33% af landsframleiðslu. SA bentu á það í umsögn sinni um fjárlög að skuldaþróun hafi farið fram úr bjartsýnustu spám í kjölfar heimsfaraldurs, sem er vel. Hins vegar virðist stundum gleymast í umræðunni um skuldir ríkissjóðs að skuldum fylgja vaxtagjöld.“ — Og ég skil vel að það komi Vinstri grænum nokkuð á óvart. — „Útgjöld sem færi jafnan betur á að nýta til grunnþjónustu en að þjónusta fjármagn.“

Þetta segja Samtök atvinnulífsins. Þetta er nákvæmlega sá punktur sem við í Viðreisn höfum verið að draga fram í umræðu okkar um þennan mikla fjárlagahalla og það að þriðju hæstu útgjöld okkar eru til vaxtagreiðslna. Það væri betra, til þess að verja velferðarkerfið, að við reyndum að minnka einmitt vaxtagjöld ríkisins til þess að reyna að ýta undir grunnstoðirnar og líka greiða niður skuldir ríkissjóðs.

„Skuldasöfnun síðustu ára byggði á lægstu vöxtum Íslandssögunnar sem þýðir að vaxtakostnaður jókst minna en sem nam vexti skulda ríkissjóðs. Nú er staðan önnur.“ — Við erum komin frá loforði Sjálfstæðisflokksins um lágvaxtaskeið. Það tók bara af á nokkrum dögum. — „Vextir hafa hækkað á síðustu misserum og er hækkunin enn meiri frá árinu 2020.

Í ár og á næsta ári þarf ríkissjóður að endurfjármagna skuldir upp á ríflega 300 milljarða króna. Aðrar skuldir eru á gjalddaga og þarf að endurfjármagna frá og með 2024. Það er því ljóst að ríkið stendur frammi fyrir hærri vaxtakostnaði til framtíðar en áður var gert ráð fyrir. Haldist vaxtastig óbreytt er um að ræða tugi milljarða króna.“ — Tugi milljarða króna sem við hefðum getað notað til að lækka skuldir ríkissjóðs og verja velferðarkerfið, og heilbrigðismálin ekki síst. — „Útgjaldaaukningin sem rekja má beint til aukinna vaxtagjalda í fjáraukalögum og breytingartillögu meiri hluta fjárlaganefndar við 2. umr. fjárlaga 2023 dregur þessa þróun fram svart á hvítu.“

Síðan benda samtökin á að tækifærin leynist víða til umbóta á útgjaldahlið ríkissjóðs og ég vil taka undir það. Það er hægt að leggja miklu meiri áherslu á árangurstengda fjárlagagerð og endurmat útgjalda, umbætur í stofnanakerfi ríkisins og almannatryggingakerfinu. Við höfum margoft ítrekað það í Viðreisn að við þurfum að einfalda kerfið. Við þurfum að hagræða hjá hinu opinbera um leið og við stöndum vörð um velferðarkerfið, ekki síst heilbrigðiskerfið, sem þarf á auknu fjármagni að halda. En það er hægt, og við sjáum það á þróun bæði launakostnaðar hins opinbera og fjölgun starfa, að einfalda kerfið og hagræða betur þegar kemur að hinu opinbera.

Það er auðvitað líka áhyggjuefni að þrátt fyrir mikinn hagvöxt er framleiðni að minnka. Það er ekki sjálfbært heldur til lengri tíma.

Samtökin benda m.a. á að það eru ekki aðeins vaxtagjöld sem vekja athygli í alþjóðlegum samanburði. „Launakostnaður hins opinbera er einnig mestur hér á landi meðal OECD-ríkja og er því ekkert ríki sem ver hlutfallslega hærra hlutfalli af verðmætasköpun í laun opinberra starfsmanna en Ísland.“

Ég vil draga fram hér þessi lokaorð hjá Samtökum atvinnulífsins sem hafa verið að benda á svipaða þætti og við í Viðreisn um að það sé hægt að hagræða og það verður að hagræða meira hjá ríkissjóði, einfalda kerfi. Við þurfum að fara í það að sameina stofnanir. Við þurfum að hafa forystu um það að fara í þessa vegferð. Við höfum bent á þessi miklu vaxtagjöld ríkissjóðs sem við verðum að ná niður ef við ætlum til lengri tíma að vera sjálfbær á þann hátt að við getum staðið undir þeirri velferð sem við viljum standa undir. En um leið eru auðvitað blikur á lofti þegar við erum að horfa á svona fjárlagafrumvarp, skilað með þessum mikla halla á sama tíma og við erum í þessari baráttu við verðbólgu og vextir í miklum hæðum.

Síðan segja Samtökin:

„Að róa sannanlega í sömu átt

Seðlabankinn, ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins mynda þrjá arma hagstjórnarinnar hér á landi. Saman bera þeir ábyrgð á verðstöðugleika í landinu. Til þess að vel takist til þurfa allir að leggja sitt af mörkum og róa í sömu átt. Það þyngir róður hinna ef einhver vanrækir sitt hlutverk og dugar skammt að skella skuldinni á aðra.“

Við heyrðum það nú í dag hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar.

„Með tillögum ríkisstjórnarinnar um stóraukin útgjöld við 2. umr. fjárlaga er því orðið ljóst að ríkissjóður ætlar að láta sitt eftir liggja“ — ríkissjóður, lesist: ríkisstjórnin, ætlar að láta sitt eftir liggja, segja Samtök atvinnulífsins — „þegar kemur að því að tryggja verðstöðugleika í landinu og veltir ábyrgðinni þess í stað alfarið yfir á herðar Seðlabankans og aðila vinnumarkaðarins.

Af því er holur hljómur.“

Ég vil taka undir þessi orð Samtaka atvinnulífsins. Það er stóralvarlegt mál hvernig ríkisstjórnin er að skilja eftir bæði Seðlabanka og aðila vinnumarkaðarins með það í fanginu að reyna að vinna bug á verðbólgunni. Ríkisstjórnin skilar ekki bara auðu, hún kyndir undir verðbólgubálið.