Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:44]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vil einu sinni enn, í tengslum við þetta fjárlagafrumvarp, minna á það sem ég hef ítrekað sagt að útgjaldavöxtur hins opinbera virðist orðinn algjörlega stjórnlaus. Ég fékk óvæntan liðsauka hvað þessa skoðun varðar í gær hjá hv. formanni efnahags- og viðskiptanefndar í ræðu hans í aðdraganda atkvæðagreiðslu um bandorminn. Ég vil bara brýna okkur hér til þess að nota nú jólafríið í að hugsa aðeins okkar gang hvað þessa útgjaldaþenslu varðar. Það koma fjárlög eftir þessi en það að við séum að setja Íslandsmet í útgjaldaauka á milli ára, bæði í milljörðum talið og hlutfallslega, er ekki gott vegarnesti fram á veginn. Reikningurinn fyrir það verður ekki greiddur af öðrum en skattborgurum framtíðarinnar en við horfum á 119 milljarða halla þessa árs og það að markmið stjórnvalda sé ekki að ná honum niður í núll fyrr en árið 2027.