Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:45]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt svona í aðdraganda jóla að heyra jákvæðnina í hv. þingmönnum. Til að auka á gleðina vil ég nota tækifærið og þakka hv. þingmönnum vegna þess að við erum á þessu ári búin að stíga sjö stór skref þegar kemur að loftslagsmálum og það hefur kallað á aðkomu þingmanna. Við erum búin að rjúfa níu ára kyrrstöðu með afgreiðslu rammaáætlunar og ég veit ekki hvar við værum ef við hefðum ekki klárað það. Við erum búin að heimila stækkun með aflaukningafrumvarpinu með einföldun regluverks, einfalda styrkjaumhverfi fyrir umhverfisvæna húshitun og nú erum við með milljarð í styrki fyrir orkuskipti hjá bílaleigum á næstu árum til að fara í rafbíla. Það eru 400 milljónir í styrki fyrir orkuskipti í þungabílum og við erum að byrja og setja kraft í jarðhitaleit og svo taka ný hringrásarlög gildi um áramótin, þ.e.a.s. við ætlum að nýta verðmætin í sorpinu og þeir aðilar sem valda (Forseti hringir.) kostnaði þar og mengun þurfa að greiða. Þetta eru sjö stór mikilvæg skref og ég vil nota tækifærið og þakka hv. þingmönnum sem hafa hjálpað til við að láta þetta raungerast.