Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:00]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja fyrir mína parta að ég hef aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum og við þessa fjárlagavinnu. Þetta er það dapurt fjárlagafrumvarp. Við erum þegar komin með einn lið í fjáraukalög næsta árs, við erum að skrapa saman 150 millj. kr. fyrir Kvikmyndasjóð með tilfærslum fram og til baka. Og viti menn, þess verður óskað, við fjáraukalög næsta árs, að fá heimild til að greiða þetta með þeim hætti sem hér á að gera. Þetta er alveg með ólíkindum. Þetta er náttúrlega brot á ákvæðum um fjáraukalög. Svona er þetta og þetta fjárlagafrumvarp mun ekki gera neitt til þess að gera íslenskt samfélag aðeins mýkra og þannig að við verðum góð við fólk sem lökustu kjörin hafa í landinu. Við munum enn hlusta á það að íslensk stjórnvöld séu ekki að standa sig sem velferðarsamfélag. Ísland er harðara samfélag en annars staðar á Norðurlöndum út af þessu. Öll umræða smitast út frá þessu. Það eru þessi fjárlög sem eru grundvöllurinn að því.