Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[16:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar fyrir nefndaráliti um 2. mál, frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlaga ársins 2023. Málinu var vísað til efnahags- og viðskiptanefndar milli 2. og 3. umr. Nefndinni bárust tvö minnisblöð frá fjármála- og efnahagsráðuneyti þar sem þess er góðfúslega óskað að nefndin geri breytingar á frumvarpinu.

Þær breytingar sem ráðuneytið leggur til og meiri hluti nefndarinnar gerir að sínum eru í fyrsta lagi til komnar vegna stuðnings stjórnvalda við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Um er að ræða breytingar á barnabótakerfinu en meiri hlutinn leggur til að fleiri fjölskyldur njóti stuðnings og að dregið verði úr skerðingum barnabóta. Lögð er til einföldun á barnabótakerfinu sem ætlað er að auka gagnsæi þess og mæta breytingum á stöðu foreldra og ábyrgð á umönnun og uppeldi barna. Þá er í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins fjallað um vaxtabætur en breytingartillaga þess efnis að þær hækki um 50% var samþykkt á þingfundi í gær.

Í öðru lagi er um að ræða breytingar á tekjuskatti og hámarksútsvari sveitarfélaga sem til eru komnar vegna samkomulags ríkis og sveitarfélaga um breytingu á fjármögnun lögbundinnar þjónustu við fatlað fólk. Lagt er til að hámarksútsvar sveitarfélaga, sem nú er 14,52%, verði hækkað um 0,22% samhliða lækkun tekjuskatts um samsvarandi hlutfall í öllum skattþrepum einstaklinga. Vísast að öðru leyti til ítarlegri umfjöllunar um breytingartillögur í nefndarálitinu og þeim minnisblöðum sem nefndinni bárust við umfjöllun málsins.

Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir.

Undir álit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Ágúst Bjarni Garðarsson, Diljá Mist Einarsdóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Orri Páll Jóhannsson, Jóhann Páll Jóhannsson, með fyrirvara, og Ásthildur Lóa Þórsdóttir, með fyrirvara.