Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:31]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég vék mér ekki undan að svara heldur er tíminn hér takmörkuð auðlind. Nei, ég tel ekki að fólk eigi að njóta þjónustu út í hið óendanlega. Hins vegar er staðan sú, og það er leitt ef hv. þingmaður hefur ekki heyrt það sem hefur farið fram í nefndinni, að það eru ákveðnir hópar sem ekki er hægt að endursenda. Það skiptir engu máli með samstarfsvilja af því það er líka túlkunaratriði og þetta veit hv. þingmaður vel, hafi hann verið að fylgjast með í nefndinni af því að þangað komu fjölmargir aðilar sem gátu frætt okkur þingmenn um það hvernig þetta gengur raunverulega fyrir sig. 300.000 kr. á mánuði. Þá er hv. þingmaður að tala um allan kostnaðinn við umsækjanda. En umsækjandi fær, held ég, 8.000 kr. á viku til framfærslu.

Aukin skilvirkni; þetta frumvarp eykur ekki skilvirkni vegna þess að þeir tímafrestir sem hafa einmitt verið settir til þess að setja ákveðna pressu á stjórnvöld að afgreiða umsóknir og klára brottvísanir — það er verið að fella þá tímafresti niður sem þýðir það að núna geta stjórnvöld hangið í því vikum og mánuðum saman að vísa fólki á brott án þess að það fái nokkra heimild til nokkurs hér á landi. Áður, það er að segja í núgildandi lögum, þarf að vera búið að framkvæma brottvísun á ákveðnum tíma. Þar á að vera búið að afgreiða umsóknina fyrir ákveðinn tíma. En með þessu er verið að minnka skilvirkni í kerfinu með því að stjórnvöld geti bara hangið á þessu. Þannig að: Nei, ég held að það sé ekki verið að auka skilvirkni.