Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:29]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir spurninguna. Hann hefur þó ekki lesið álit mitt nógu gaumgæfilega þar sem að þegar ég er að tala um skerðingu á réttindum fólks á flótta þá er ég sannarlega að tala um fólk á flótta. Þar er ég m.a. að tala um rétt fólks sem tryggður er í mannréttindasáttmála Evrópu sem við eigum aðild að og er jafnvel talinn hafa stjórnarskrárígildi hér á landi, þar sem mörg ákvæði hans eru tíunduð með einum eða öðrum hætti í stjórnarskránni. Samkvæmt 13. gr. mannréttindasáttmálans þá á fólk rétt á því að eiga raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum. Það eru ákvæðin sem ég er að gagnrýna í frumvarpinu. Það er verið að afnema og skerða ákveðnar leiðir flóttafólks, fólks á flótta en ekki í ólögmætri dvöl, til að leita réttar síns. Þá er líka verið að skerða réttindi barna á flótta með beinum hætti. Ég ímynda mér að þingmaðurinn hafi haft í huga þjónustuskerðinguna (Forseti hringir.) þegar hann taldi mig vera að segja að verið væri að brjóta á fólki á flótta, því það er eina fólkið í þessu frumvarpið sem ég ímynda mér að þingmaðurinn eigi við með fólki í ólögmætri dvöl. (Forseti hringir.) Varðandi það þá hef ég allt aðrar og meiri áhyggjur sem mér gefst ekki tími til að ræða hér.