Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:50]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta allsh.- og menntmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Þakkir fyrir hlý orð í upphafi andsvarsins. En svo var þetta nú svolítið „nei, þú“– ræða; þú ert með umbúðir um flókið mál. Ég verð að viðurkenna, frú forseti, að ég hafði nú helst áhyggjur af því, þegar ég flutti þessa hálftímaræðu, að ég væri að fara í of mikil smáatriði og of nákvæmlega í umfang þessa stóra máls. En hv. formanni allsherjar- og menntamálanefndar þótti þetta vera of einfalt. Ef svo er myndi ég vilja sjá það birtast í tillögum þingmanna Sjálfstæðisflokksins og nefndarinnar því að þessar tillögur og þessi stefna er ekki til þess fallin að taka á vandanum í raun. Hv. þingmaður sagði að stefna Sjálfstæðisflokksins væri ekki umbúðastefna heldur væri hún stefna um mannúð, réttlæti, ábyrgð og raunsæi — eru þetta ekki umbúðir? Hvað er á bak við þetta? Hvert er innihaldið þegar talað er um mannúð, réttlæti, ábyrgð og raunsæi? Hvaða mannúð er í því að gera Ísland að söluvöru glæpagengja og geta fyrir vikið ekki hjálpað þeim sem eru í mestri neyð sem best? Það er engin mannúð í því fólgin, en svo er einhverjum orðum kastað fram, mannúð, réttlæti, ábyrgð og raunsæi. Stefna Sjálfstæðisflokksins sem var samþykkt á landsfundinum, þrátt fyrir tilraunir nokkurra Sjálfstæðismanna til að koma smáviti í tillöguna með breytingartillögum, var Samfylkingartillaga. Ég hvet hv. þingmann til að lesa niðurstöðuna eins og hún varð hjá Sjálfstæðismönnum, eftir að tilraunir manna til að laga ályktunina höfðu verið kolfelldar, og í annarri umferð, það þurfti að kjósa aftur eins og hjá Evrópusambandinu, og bera saman við stefnu Samfylkingarinnar. Þetta er sama stefnan, sömu umbúðirnar. En hvert er innihaldið? Við vitum það ekki enn, við höfum bara þetta litla útlendingafrumvarp. (Forseti hringir.) En ég hvet hv. þingmann til að halda áfram vinnunni og koma með eitthvað meira.