Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:05]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta allsh.- og menntmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sagðist ætla að leiðrétta eitt og annað en svo leiðrétti hann ekki neitt en sagði okkur sína skoðun á hinum ýmsu málum. Ég get hins vegar byrjað að svara skýrt síðustu spurningunni: Já, ég styð þróunarsamvinnu eindregið og tel að það mætti auka hana umtalsvert. En þá skiptir öllu máli hvernig hún nýtist, að hún nýtist sem flestum sem þurfa mest á aðstoð að halda. Þessi höfðatölurökleysa, sem ég hef heyrt frá nokkrum þingmönnum hér áður í þessu samhengi, er alveg kostuleg, að halda því fram að höfðatala gildi ekki þegar um Ísland er að ræða, þó að auðvitað hafi það bein áhrif á kerfið allt, umfang kerfisins, stærð samfélagsins o.s.frv. Þá er varpað fram einhverju eins og: Ættu þingmenn að vera 63 eða ættu þeir kannski bara að vera hálfur þingmaður miðað við fjölda þingmanna í Bandaríkjunum? Þetta er bara einhver útúrsnúningur og della. Svo er það tölfræðin, hverjir koma á eigin vegum eða jafnvel á vegum smyglara sem skipuleggja þessa fólksflutninga. Evrópusambandið sjálft og ég veit ekki alveg um afstöðu hv. þingmanns til þess, en það nýtur nú einhverrar hylli hér í salnum, segir að meiri hlutinn sem kemur til Evrópu sé á vegum slíkra aðila, enda er ekkert auðvelt að komast frá Afríku, sunnan Sahara, eða frá austanverðri Asíu til Evrópu á eigin vegum, ekki hvað síst vegna þess að þetta fólk fær ekki vegabréfsáritun. En það er allt önnur saga og setur þetta í alveg merkilegt samhengi að búið sé að búa til það kerfi hér að stuðla að hættuför fólks. Ef það kemst alla leið þá er því fagnað, tekið með kostum og kynjum, en fólkið fær ekki að fara í flugvél, þó að flugmiðinn kosti jafnvel miklu minna en það að borga smyglurum. Þetta sýnir tvískinnungsháttinn í málinu öllu. Úkraínu á ég eftir að fjalla um sérstaklega — tíminn er svo fljótur að líða, frú forseti, ég verð að halda áfram á eftir.