Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:35]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég vil koma aðeins inn á það sem hann nefndi í ræðu sinni, að hann teldi að við gætum auðveldlega tekið á móti mun fleiri umsækjendum um alþjóðlega vernd. Þá langar mig að fara aðeins yfir tölfræði með honum. Það er nú einu sinni þannig að fjöldi umsókna um alþjóðlega vernd hefur margfaldast hér á mjög skömmum tíma og við sjáum að hlutfallslega erum við að taka á móti miklu fleiri umsækjendum um alþjóðlega vernd en Norðurlöndin og nágrannalöndin í kringum okkur. Á hverja 10.000 íbúa sóttu 23 um hæli á Íslandi árið 2021, þeir voru þrír í Noregi. Við horfum fram á það að hér sækja 500 manns um á mánuði og 4.500 á síðasta ári eða tæplega 5.000. Útlendingastofnun spáir að lágmarki 5.000 á þessu ári. Svo höfum við fjölskyldusameiningar sem geta þýtt það að við erum kannski að horfa á 10.000 manns eða 15.000 manns.

Nú hafa sveitarfélögin, eins og Reykjanesbær, gefið út að þau ætli ekki að taka á móti fleiri flóttamönnum. (Forseti hringir.) Hvernig eigum við að fara að taka á móti fleirum og hvað vill Viðreisn taka á móti mörgum? (Forseti hringir.) Er ekki nauðsynlegt að hafa sveitarfélögin með okkur og hvað ætlar Viðreisn að gera (Forseti hringir.) þegar sveitarfélögin eru komin að þolmörkum og geta ekki tekið á móti fleirum? Hvernig ætlar Viðreisn að bregðast við því?