Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:41]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið og þakka sömuleiðis fyrir gott samstarf í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Það hefur verið mjög gott að mörgu leyti þótt við séum ekki sammála. En það eru nokkur atriði sem mig langaði að koma inn á, sérstaklega kannski til að byrja með, þ.e. að ég sé að taka undir álit hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur sem er þingmaður Samfylkingarinnar, að það komi eitthvað sérstaklega á óvart. Ég er áheyrnarfulltrúi og get ekki skilað inn eigin áliti. Ég get náttúrlega notað sömu rök og sagt að það komi alveg verulega á óvart að þingmenn VG í allsherjar- og menntamálanefnd skuli taka undir álit og vera samstofna og saman í áliti með hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, Bryndísi Haraldsdóttur og Birgi Þórarinssyni. Það vekur ákveðna furðu, held ég að það sé óhætt að segja. Sama getum við sagt með Framsóknarflokkinn. Hann möndlar sig saman með þessum tveimur flokkum. Getum við nálgast umræðuna einhvern veginn svona? Auðvitað ekki.

Ég tek undir það sem kemur fram í nefndaráliti hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur. Ég hef líka verið að taka undir ákveðin sjónarmið sem hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir hefur komið með. Ég get sagt það fullum fetum að það er fátt sem ég ætla að taka undir í meirihlutaálitinu. Það er mjög fátt sem ég ætla að taka undir í áliti því sem kemur frá Flokki fólksins og það er enn færra sem ég ætla að taka undir af því sem kemur fram í áliti Miðflokksins í þessu máli. Þannig er það bara.

Ég er þeirrar skoðunar, og ég held að þingflokkur Viðreisnar sé þar með mér, að við Íslendingar eigum ekki og við megum ekki, finnst mér, senda fólk í aðstæður þar sem því er búin einhver ógn. Að senda þau í aðstæður þar sem maður getur lent á götunni, að senda þau í aðstæður þar sem það fær mögulega ekki heilbrigðisþjónustu, ekki endilega vegna þess að þar bíði þess einhver mannvonska heldur vegna þess að kerfi og innviðir viðkomandi landa geta ekki tryggt fólki öll þessi grundvallarmannréttindi. Það er hugsunin í öllu því sem við höfum verið að nefna, svo að ég vitni nú til þess sem þingmaðurinn vitnaði til hér í andsvarinu áðan.