Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:45]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er verið að knýja á um að ég svari fyrir einhver allt önnur þingmál en hér eru til umræðu í dag. En gott og vel, það er ekkert mál. Ég ætla bara að árétta það sem ég sagði hér fyrr að það er þannig að ef fólk kemur hingað frá ríkjum sem geta ekki tryggt mannréttindi fólks — nú er það þannig að þeir sem eru ekki komnir með vernd í þessum ríkjum eru betur staddir en þeir sem eru komnir með vernd, vegna þess að þeir sem eru komnir með vernd eiga að ganga inn í kerfi sem þarna eru fyrir sem eru yfirfull. Það er einmitt það sem ég er að gagnrýna við það sem ríki Evrópu eru að gera, það er verið að henda vandanum til ríkja sem eru ekki í stakk búin til að takast á við hann. Öll ríki álfunnar gera það en það eru hins vegar mörg ný ríki álfunnar sem taka stöðu með mannréttindum og benda nákvæmlega á þetta sem við erum að benda á, að við eigum ekki að fara með fólk í aðstæður þar sem því er búin einhver ógn eða það getur ekki verið öruggt um það að hlúð sé að réttindum þeirra og að því sé sýnd þá einhver lítilsvirðing innan kerfa, eins og stundum er, vegna þess að þessi ríki eru ekki í stakk búin til að taka á öllum þessum fjölda. Þetta er auðvitað margbúið að fara yfir hér í ræðum og umfjöllunum og það væri held ég bara ágætt (Forseti hringir.) ef við gerðum meira af því að ræða um þessi mál á þeim nótum. Við eigum ekki að senda fólk — og það er meira að segja þannig að í lögunum okkar á Íslandi (Forseti hringir.) er ákvæði sem beinlínis segir að við eigum ekki að senda fólk til baka í vanvirðandi aðstæður.