Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:47]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu sem hann flutti hér áðan. Mig langar að spyrja hv. þingmann sem fór í ferð með allsherjar- og menntamálanefnd til Danmerkur annars vegar og Noregs hins vegar aðeins út í framkvæmdina á Norðurlöndum af því að það er mjög mikið vísað til þess að við eigum ekki að vera með öðruvísi reglur en á Norðurlöndum. Var það tilfinning hv. þingmanns að reglurnar og framkvæmdin væri nákvæmlega eins í Noregi og Danmörku? Varð hv. þingmaður þess áskynja að þessi lönd væru að svipta fólk þjónustu alfarið eftir ákveðinn tíma? Var eitthvað spurt út í það og hver voru svörin í þessum löndum við þeim fyrirspurnum?

Svo vil ég líka aðeins tala um fjölskyldusameiningar, af því að því var haldið fram hér í pontu áðan að ef hingað kæmu 500 manns á mánuði þá þýddi það að við myndum sjá 15.000–20.000 manns á ári þegar fólk sækti um fjölskyldusameiningar. (Gripið fram í: 5.000 á ári) — Já, 5.000 á ári, ef það kæmu 5.000 á ári þá myndu koma 15.000–20.000 út af fjölskyldusameiningum. Er þingmanninum kunnugt um að þeir sem sækja um vernd á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar eru með í fjöldatölunum og er þingmanninum kunnugt um að það er þannig að það er ekki hægt að óska eftir fjölskyldusameiningu nema fyrir börn og maka eða foreldra fylgdarlausra barna? Það er ekki hægt að óska eftir fjölskyldusameiningu ef um er að ræða fjarskylda ættingja. Þetta svolítið tæknilegt. Ég vildi bara aðeins kanna hvort þetta hafi verið eitthvað rætt í allsherjar- og menntamálanefnd.