Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:07]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki mín skoðun að hér eigi að vera opin landamæri en ég sé ekki að það sé einhver manngæska í þessu frumvarpi sem hér er verið að leggja til. Ég met hv. þingmann fyrir þann vilja að ætla sér að reyna að koma fram einhverjum breytingum á þessu frumvarpi en ég sé ekki og ég heyri ekki á orðum hv. framsögumanns í málinu, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, að það standi nokkuð til að fara að gera einhverja breytingu á þessu, að þetta sé bara orðið svo gott að það þurfi ekki að gera neinar breytingar. Þetta, eins og það lítur út núna, sé málamiðlun á milli þeirra aðila sem sitja í ríkisstjórn og þess vegna þurfi ekki að gera neinar breytingar. En ég óska hv. þingmanni velfarnaðar í að gera breytingar og vona að hún komi þeim í gegn.