Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:13]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið þó að spurningunum hafi ekki verið svarað. Ég skal endurtaka þær: Finnst henni þetta í lagi? Munt þú leyfa þessu að standa? Yfirsást þér þetta við meðferð málsins í nefndinni? Af hverju er ekki minnst á þetta í nefndaráliti meiri hlutans sem hv. þingmaður skrifar undir?

Hv. þingmaður nefndi hérna að það verði gerðar frekari breytingar á málinu og það sé þegar búið að ákveða að taka málið inn í nefnd á milli 2. og 3. umræðu. Mig langar að spyrja hv. þingmann, líka í ljósi þess að hv. þingmaður fór fram á tilteknar gestakomur þegar málið var rætt í allsherjar- og menntamálanefnd í síðustu viku án þess að það væri tekið þangað inn, telur þingmaðurinn ekki ástæðu til að taka málið aftur inn til allsherjar- og menntamálanefndar nú þegar? Það má vísa því inn í nefnd á hvaða tímapunkti sem er. Ég spyr hv. þingmann hvort það færi ekki best á því að klára málið almennilega fyrir 2. umr. í stað þess að láta þessa umræðu fara fram án þess að við höfum hugmynd um hvað við erum í rauninni að ræða, og fara síðan með það inn í nefnd.