Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:21]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Fulltrúar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna komu til viðtals við allsherjar- og menntamálanefnd áður en málið var tekið út. Þeir komu vissulega aftur en þingmaðurinn studdi eindregið að málið yrði tekið út og er á nefndarálitinu án fyrirvara og því átta ég mig ekki alveg á þessari breytingu. Mig langar kannski bara að spyrja hv. þingmann: Hvað er það nákvæmlega sem hún hyggst beita sér fyrir að verði breytt í frumvarpinu?

Varðandi stöðu hæstv. félagsmálaráðherra þá er hluti frumvarpsins á hans málefnasviði. Þess vegna hefði maður mátt ætla að umræddur ráðherra hefði áhuga á því sem hér er fjallað um.

Að lokum langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hún sé tilbúin að styðja tillögur okkar um að skipuð verði þverpólitísk nefnd eigi síðar en núna til að fara (Forseti hringir.) og skoða útlendingalögin í heild sinni, eins og gert var á kjörtímabilinu 2013–2016?